Innlent

Brúðkaupum fækkar í kreppunni

Vigfús Þór Árnason
Vigfús Þór Árnason Mynd/ Anton Brink
Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur í Grafarvogi, segir að brúðkaupum hafi fækkað þónokkuð eftir að kreppan skall á. Hann segist hafa rætt við marga kollega sína sem segja sömu sögu.

„Já það er alveg á hreinu. Þeim hefur fækkað þónokkuð," segir Vigfús. Hann segir einnig að íburður brúðkaupa hafi minnkað en það telur hann vera ákveðið þroskamerki. „Ég held að þetta eigi eftir að þroskast. Fólk er að átta sig á því að það er hægt að gifta sig án þess að reisa sér hurðarás um öxl. Það er hægt að gera margt sjálfur varðandi mat og annað til dæmis," segir Vigfús.

Hvað andstæðu giftinga - skilnaði - varðar, segist Vigfús ekki merkja að þeir hafi aukist í kjölfar efnahagshrunsins. „Ég hef ekki tekið eftir því, þeir eru ekki fleiri en vanalega. Eins finnst mér peningavandamál ekki vera ástæða skilnaða frekar en almenn vanlíðan eftir því sem fólk segir mér."

Hann útilokar þó ekki að áhrif kreppunnar á hjónabönd eigi eftir að koma fram. „Þegar peningavandræði fara að vara í einhvern tíma getur það haft áhrif á hjónabönd. Núna hugsar fólk kannski: „Njótum sólarinnar og könnum þetta aðeins seinna." Rétt eins og það hugsaði fyrir jólin: „Höldum jólin og hugsum svo málin."," segir Vigfús.

Hann segir kirkjustarfið vera blómlegt þrátt fyrir erfiðar efnahagsaðstæður. Á sunnudaginn verður haldin útimessa niðri við Nónholt í Grafarvogi en þetta mun vera í fimmta sinn sem það er gert. Núna hafa hinsvegar Grafavogssókn, Grafarholtssókn og Árbæjarsókn tekið höndum saman og munu halda útimessu saman. Gengið verður frá hverjum stað fyrir sig klukkan 10 og hefst messa klukkan 11. Predikari að þessu sinnu verður Guðrún Karlsdóttir, prestur í Grafarvogssókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×