Lífið

Gunnar Björn næsti leikstjóri Skaupsins

gunnar björn Harðneitar að tjá sig um það hvort ekki sé öruggt að Siggi Sigurjóns, Laddi, Steinn Ármann og fleiri frægir sveitungar hans fái hlutverk í Skaupinu.
fréttablaðið/stefán
gunnar björn Harðneitar að tjá sig um það hvort ekki sé öruggt að Siggi Sigurjóns, Laddi, Steinn Ármann og fleiri frægir sveitungar hans fái hlutverk í Skaupinu. fréttablaðið/stefán

„Það er ekkert frágengið okkar á milli. Við erum að ræða samningsatriði og skoða ýmsa fleti. En mér finnst hann spennandi og áhugaverður kostur,“ segir Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins.

Þórhallur hefur átt í viðræðum við Gunnar Björn Guðmundsson leikstjóra um að taka að sér hið mikla verkefni sem er að stýra sjálfu Áramótaskaupinu. Enginn ætti að velkjast í vafa um að því starfi fylgir gríðarleg pressa.

„Já, það er mikil áskorun. Níutíu og fimm prósent þjóðarinnar að horfa á verk eftir mann! En gaman að fá ungt og ferskt blóð í þetta. Gunnar hefur allt með sér. Ferskur andblær. Hann er bráðefnilegur leikstjóri og hefur sýnt góð vinnubrögð í öllu sem hann hefur gert. Til dæmis Astrópíu,“ segir Þórhallur.

Síðast leikstýrði Silja Hauksdóttir Skaupinu, þar áður Ragnar Bragason og þá Reynir Lyng-dal. Þórhallur lýsir yfir ánægju með vinnubrögð þeirra hvers um sig.

„En mér finnst Skaupið vera þess eðlis að sem flestir eigi að fá að spreyta sig á því.“

„Það eru allavega viðræður í gangi. Þetta er mjög spennandi. Eitt af mest spennandi verkefnum sem í boði eru, krefjandi og mikil pressa, en ég er til ef af verður,“ segir Gunnar Björn. En vill lítið tjá sig um málið á þessu stigi. Vill ekki einu sinni upplýsa hvort áhorfendur megi búast við Hafnarfjarðarbröndurum í næsta Skaupi en Gunnar er Hafnfirðingur.

Þaðan er dobía af góðum grínleikurum: Laddi, Siggi Sigurjóns, Magnús „bolla“ Ólafsson, Steinn Ármann, Stefán Karl og Björk Jakobs… Aðspurður hvort þessi megi ekki örugglega búast við hlutverkum í Skaupinu segir Gunnar hlæjandi: „No comment“. - jbg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.