Innlent

Óeðlileg töf á afgreiðslu aðalskipulags Þjórsárvirkjana

Oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir ekki eðlilegt hversu langan tíma Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tekur til að staðfesta virkjanir í Þjórsá inn á aðalskipulag hreppsins.

Skipulagsvaldið liggur hjá sveitarfélögunum og þótt umhverfisráðherra kunni að vera andvígur málinu hefur hann ekki vald til að stöðva það nema formgalli finnist. Og það var einmitt það sem Svandís Svavarsdóttir nýtti sér í vor þegar hún taldi á skorta að hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps héldi kynningarfund með íbúum.

Það þótti oddvitanum, Gunnari Erni Marteinssyni, raunar skrýtin ákvörðun, enda hafi hann talið óþarft að halda fundinn. Fundurinn hafi engu að síður verið haldinn í júníbyrjun í samráði við ráðuneytið. Þar með segir oddvitinn að öllum formlegum skilyrðum hafi verið fullnægt til að hægt sé að taka ákvörðun.

Gunnar segir það mjög slæmt þegar hlutirnir dragist svona lengi. Þetta sé ekki dæmi um mjög góða stjórnsýslu. Þetta sé búið að vera í ráðuneytinu frá því í nóvember og hlutirnir verði að ganga hraðar fyrir sig. Ekki sé eðlilegt að aðalskipulagsbreytingar sveitarfélaga þurfi að liggja mánuðum saman til úrskurðar í ráðuneytinu þegar Skipulagsstofnun sé búin að fara yfir málið og búið að vinna það allt á lögformlegan hátt. Ekki eigi að þurfa að taka nema 1-2 mánuði í mesta lagi að afgreiða mál, eftir umfangi þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×