Lífið

Guðjón í ASÍ

myndlist Ein teikning Guðjóns á sýningunni Hlutverk sem verður opnuð í dag í Ásmundarsal.Mynd/Guðjón Ketilsson
myndlist Ein teikning Guðjóns á sýningunni Hlutverk sem verður opnuð í dag í Ásmundarsal.Mynd/Guðjón Ketilsson

Í dag opnar Guðjón Ketilsson myndlistarmaður sýningu í Listasafni ASÍ á Skólavörðuholti í Ásmundarsal. Á sýningunni sýnir Guðjón nýja skúlptúra og teikningar, þar sem hann tekur fyrir byggingarrými og húsgögn, hlutverk þeirra og hliðstæður við mannslíkamann.

Guðjón er menntaður við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Nova Scotia College of Art and Design í Halifax, Kanada og hefur hann haldið tugi einkasýninga og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Spáni, Ástralíu og víðar. Hann á verk á öllum helstu söfnum landsins og víða erlendis og hefur dvalið og unnið á ýmsum alþjóðlegum vinnustofum og verið valinn í fjölda samkeppna um útilistaverk. Guðjón hlaut Menningarverðlaun DV árið 2000 og verðlaun Listasafns Einars Jónssonar árið 2001.

Guðjón kallar sýninguna Hlutverk og í inngangi segir sýningarstjórinn Ólöf K. Sigurðardóttir: „Listaverk greina gjarnan kunnuglega hluti frá sínu venjulega umhverfi og gefa þeim nýtt hlutverk. Þau krefja áhorfandann um afstöðu til þess sem er þekkt en kynna einnig nýja möguleika og hugmyndir sem leiða hugann á óþekktar brautir. Þannig sýna verk Guðjóns Ketilssonar á sýningunni Hlutverk ekki eingöngu áhuga hans á að athuga fyrirbæri í umhverfi okkar í því skyni að lýsa þeim eins og þau koma fyrir honum sjónir heldur líka til að kanna hvaða nýja hlutverk má finna þeim eða hvaða nýja skilning má fá á hlutverki þeirra.“ - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.