Lífið

Trukkabílstjórar gera sér glaðan dag

Hressir trukkarar Dóri tjakkur, lengst til vinstri, heldur árlegt skemmtikvöld sitt á Spot í Kópavogi í kvöld. Jói Bach er annar frá hægri.Fréttablaðið/Valli
Hressir trukkarar Dóri tjakkur, lengst til vinstri, heldur árlegt skemmtikvöld sitt á Spot í Kópavogi í kvöld. Jói Bach er annar frá hægri.Fréttablaðið/Valli

„Við stefnum að því að ná sömu tölu og síðast, þúsund manns,“ segir Jóhannes Bachmann, einn skipuleggjenda Trukkakvölds Dóra tjakks sem haldið verður á Spot í Kópavogi í kvöld. Stíf dagskrá verður á malarplaninu fyrir aftan Smáralind í dag. Þar verður sýningin Trukkar & tæki 2009 þar sem trukkabílstjórar landsins koma saman og sýna tryllitæki sín.

Almenningi gefst kostur á að skoða tækin. Ef veður leyfir verður hægt að láta hífa sig tugi metra upp í loft í körfu. Ókeypis er inn á sýninguna og segir Jóhannes að þar verði eitthvað að finna fyrir alla aldurshópa.

Jóhannes stendur að skipulagningu sýningarinnar og skemmtikvöldsins ásamt þeim Dóra tjakk, Ólafi Þór, Gesti Reynissyni og Herði Aðils. Hann segir að margir úr þessum geira séu fluttir úr landi en enn sé nóg af fólki sem vilji gera sér glaðan dag. „Þetta er eina dæmið í þessum geira þar sem eitthvað er um að vera, fyrir utan árshátíð. Trukkakvöld Dóra tjakks er algjört eðalkvöld sem enginn vill missa af.“

Dagskráin er ekki flókin þegar trukkabílstjórar koma saman. Á þeirra samkomum kneyfa menn öl, ræða málin og stíga svo dans þegar hljómsveitin stígur á svið. „Við erum svo skemmtileg og hress. Við látum okkur sömu hljómsveit og í fyrra duga. Strákarnir í Sixties voru æðislegir í fyrra og nú eru þeir reynslunni ríkari.“- hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.