Lífið

Mikið hlegið á Litla-Hrauni

Mikið stuð og mikið gaman
Það var mikið hlegið á Litla-Hrauni á miðvikudaginn þegar vistmenn þar horfðu fyrstir allra á tvo fyrstu þættina í Fangavaktinni. Ragnar Bragason, leikstjóri þáttanna, segist aldrei hafa farið á svona skemmtilega frumsýningu og Margrét Frímannsdóttir telur sig geta ábyrgst að strákarnir á Hrauninu eigi ekki eftir að missa af einum einasta þætti.
Mikið stuð og mikið gaman Það var mikið hlegið á Litla-Hrauni á miðvikudaginn þegar vistmenn þar horfðu fyrstir allra á tvo fyrstu þættina í Fangavaktinni. Ragnar Bragason, leikstjóri þáttanna, segist aldrei hafa farið á svona skemmtilega frumsýningu og Margrét Frímannsdóttir telur sig geta ábyrgst að strákarnir á Hrauninu eigi ekki eftir að missa af einum einasta þætti.
„Við ákváðum að gera þetta enda áttum við í nánu samstarfi við bæði fanga og allt starfsfólk Litla-Hrauns. Við réðumst náttúrlega þarna inn á heimili þeirra í tvær vikur en þeir sýndu okkur alveg ótrúlega hjálpsemi og reyndust mikil og góð hjálp,“ segir Ragnar Bragason leikstjóri en það var heldur betur kátt á hjalla á Litla-Hrauni á miðvikudaginn þegar fulltrúar Fangavaktarinnar frumsýndu fyrstu tvo þættina í fangelsinu. Búið var að gera bíósal í íþróttahúsi fangelsisins og að lokinni sýningu var boðið upp á samlokur og með því. Meðal þeirra sem fóru á Litla-Hraun með Ragnari voru Pétur Jóhann Sigfússon, Jón Gnarr og handritshöfundurinn Jóhann Ævar Grímsson.

Ragnar segir að þótt þrenningin Georg, Daníel og Ólafur Ragnar sé fyrirferðarmest hafi þeir Björn Thors og Sigurður Hrannar slegið í gegn á Hrauninu en þeir leika þrjótana í þáttunum. „Í kaffispjallinu á eftir kom alveg skýrt fram að það mætti finna þá í fleiri en einu eintaki þarna inni,“ segir Ragnar en auk þeirra koma Ingvar E. Sigurðsson, Ólafur Darri og Gunnar Hansson einnig töluvert við sögu. Ragnar var ekki í vafa um að þetta hefði verið ein skemmtilegasta frumsýning sem hann hafi farið á. „Ég held að ég fari ekki með fleipur þar, þeir lifðu sig algjörlega inn í þetta og maður upplifði þættina á allt öðruvísi hátt þarna.“

Margrét Frímannsdóttir, forstöðukona Litla-Hrauns, var einnig mjög ánægð með útkomuna. Og sagði að fangarnir hefðu skemmt sér konunglega á sýningunni. „En það verður eflaust hlegið á öðrum stöðum hérna heldur en heima í stofu,“ segir Margrét og bætir því við að henni þótti mikið til þessa framtaks koma. „Þetta tók náttúrlega töluverðan tíma og fangarnir lögðu mikið á sig, gáfu eftir útivistartíma og íþróttahúsið á meðan á tökunum stóð. En aldrei kom til neinna árekstra og þeir kunna vel að meta það þegar þeim er sýnd virðing og þakklæti eins og þarna var gert.“ Margrét segist sjálf hafa séð suma takta frá sér í þáttunum. Og að hún hafi síður en svo ekki verið sú eina. „Nei, og ég held að ég geti ábyrgst að strákarnir hérna ætla ekki að missa af einum einasta þætti.“freyrgigja@frettabladid.is
Margrét Frímansdóttir, forstöðumaður Litla Hraun





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.