Innlent

Tjá sig ekki um niðurfellingu

Auk Björgólfsfeðga var Magnús Þorsteinsson kaupandi að stórum hluta í Landsbankanum. Magnús er gjaldþrota.fréttablaðið/þök
Auk Björgólfsfeðga var Magnús Þorsteinsson kaupandi að stórum hluta í Landsbankanum. Magnús er gjaldþrota.fréttablaðið/þök

Talsmaður Björgólfsfeðga, Ásgeir Friðgeirsson, vill ekki tjá sig um hvort tilboð Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar um niðurfellingu á skuld þeirra við Nýja Kaupþing sýni að hinn síðarnefndi sé ekki borgunarmaður fyrir skuld sinni við Nýja Kaupþing.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær hafa Björg­ólfs­feðgar gert Nýja Kaupþingi tilboð um að greiða um helming af sex milljarða króna skuld þeirra við bankann. Skuldin er tilkomin vegna kaupa á hlut ríkisins í Landsbankanum árið 2002.

Björgólfur Guðmundsson gaf upplýsingar um stöðu eigna sinna og skuldbindinga við Landsbankann í maí. Þar kom fram að persónulegar ábyrgðir hans hjá Landsbankanum námu þá um 58 milljörðum króna og eignir fyrirtækja hans höfðu rýrnað um 116 til 128 milljarða króna frá ársbyrjun 2008. Eignir hans á móti skuld við bankann voru þá metnar á um tólf milljarða.

Krafa Kaupþings á hendur Samson í kröfulýsingu er tæpir sex milljarðar króna. Heildarkröfur í þrotabúið nema um 112 milljörðum króna. Lánar­drottnar voru auk Kaupþings Landsbankinn, Straumur og Glitnir, auk þýsku bankanna Commerzbank og Standard.

Helgi Birgisson, skiptastjóri þrotabúsins, segir að líkur á því að kröfuhafar endurheimti fjármuni sína þær sömu og fyrst eftir gjaldþrot eignarhaldsfélagsins. Féð sé að stórum hluta tapað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×