Lífið

Guðrún María á tónleikum í dag

tónlist Guðrún María Finnbogadóttir sópran.
tónlist Guðrún María Finnbogadóttir sópran.

Mætt er til landsins Guðrún María Finnbogadóttir sópran sem hefur dvalið lengi í Englandi við nám og störf. Hún heldur tónleika í Hafnarborg í hádeginu við undirleik Antoníu Hevesi. Guðrún María Finnbogadóttir sópran flytur þar tilfinningaríkar aríur meðal annars eftir Händel. Hefjast tónleikarnir kl. 12.15.

Guðrún María Finnbogadóttir stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi árið 1993. Sama ár sigraði hún í Tónvakakeppni Ríkisútvarpsins og kom af því tilefni fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói. Fyrir Íslands hönd fór hún í keppni ungra norrænna tónlistarmanna og varð í þriðja sæti. Hún fór til Ítalíu í nám, þaðan til London þar sem hún var við nám bæði við Guildhall School of Music And Drama og Royal Academy. Hún hefur sungið á ýmsum tónleikum, meðal annars undir handleiðslu Osma Venska og Sir Colin Davis og í óperuuppfærslum í Evrópu, meðal annars á samningi hjá European Opera Centre.

Hádegistónleikar hafa verið fastur liður í starfi Hafnarborgar frá árinu 2003. Þeim hefur verið mjög vel tekið og komast stundum færri að en vilja. Tónleikarnir standa yfir í um hálfa klukkustund og eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá byrjun verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar en margir af fremstu söngvurum þjóðarinnar hafa komið fram með henni á hádegistónleikum en fram að jólum verða tónleikarnir helgaðir söngvurum sem hafa markað sér starfsvettvang á erlendri grund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.