Innlent

Landhelgisgæslan bjargaði 68 á árinu sem leið

TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar.
TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar.

Flugdeild Landhelgisgæslunnar hafði í nógu að snúast á árinu sem var að líða en alls var 68 einstaklingum bjargað í þeim 150 útköllum sem bárust deildinni. Útköllum fækkaði þó nokkuð á milli ára. Ekki er um fólksflutninga að ræða í öllum þeim útköllum sem berast heldur er oft er um að ræða leitarflug eða annars konar aðstoð.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að útköllum hafi fækkað um 18% milli ára en flest þeirra bárust í gegnum stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en einnig frá Neyðarlínunni og Fjarskiptamiðstöð Lögreglunnar.

„Frá árinu 2004 og fram til 2007 varð jöfn aukning í fjölda útkalla eða um 11 prósent á ári. Mikil aukning varð síðan milli áranna 2006 og 2007 eða um 28 prósent, segir ennfremur en á síðasta ári var fjöldi útkalla svipaður og árið 2006 eða alls 150.

„Af þeim voru alls 54 á láglendi, 57 í óbyggðir og 39 útköll á sjó, þar af 9 lengra út en 150 sjómílur. Önnur verkefni flugdeildar á síðastliðnu ári voru þjóðvegaeftirlit og æfingar fyrir lögreglu, þjálfun fyrir Slysavarnaskóla sjómanna, uppsetning snjóflóðavarnargirðingar í Ólafsvík, ísbjarnarleitir, ýmis farþegaflug með vísindamenn og önnur farþegaflug," segir einnig.

Það sem helst er eftirtektarvert í tölum flugdeildar á árinu sem leið er fækkun útkalla á sjó, voru þau alls 39 og hlutfall þeirra um þriðjungur af heildinni. Útköllum á sjó hefur fækkað jafnt og þétt frá árinu 2004 en þá voru þau 61 talsins og hlutfall þeirra helmingur allra útkalla hjá Flugdeild Landhelgisgæslunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×