Erlent

Bandarískur ofurhermaður uppspuni frá rótum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
„Rick Duncan“ sem reyndist vera lygasjúklingurinn Richard Strandlof.
„Rick Duncan“ sem reyndist vera lygasjúklingurinn Richard Strandlof. MYND/CNN

Meint stríðshetja úr bandaríska sjóhernum sem farið hefur sigurför um Bandaríkin reyndist þegar upp var staðið aldrei hafa útskrifast úr herskóla.

Rick Duncan er enginn venjulegur hermaður. Hann lifði naumlega af árás hryðjuverkamanna á bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon 11. september 2001. Því næst rétt komst hann af á lífi þegar vegasprengja sprakk við hlið hans í Írak. Hann er með stálplötu í höfðinu eftir þann atburð.

Hann hefur ferðast víða um Bandaríkin, komið fram við hlið stjórnmálamanna og sagt sögu sína á samkomum fyrrum hermanna. Rick Duncan heitir þó alls ekki Rick Duncan. Hann heitir Richard Strandlof. Hann var í gistiskýli fyrir heimilislausa í San Jose 11. september og horfði með skelfingu á atburðina í sjónvarpi eins og margir Íslendingar hér heima, hann hefur aldrei komið til Írak né verið í hernum. Hann hóf hins vegar herþjálfun á sínum tíma en hætti henni fljótlega. Það er bara spurning um stálplötuna.

Strandlof er haldinn ólæknandi lygaáráttu og á greinilega auðvelt með að hljóma býsna sannfærandi. Hann blekkti þúsundir ef ekki tugþúsundir Bandaríkjamanna í ansi langan tíma en segir nú CNN að hann sjái eftir öllu saman. Talsmenn hersins eru ekki beint ánægðir eins og gefur að skilja og segja Strandlof með tiltæki sínu ræna fjölda hermanna trúverðugleika sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×