Innlent

Kynferðisafbrotamaður: „Ertu til í kallinn?“

Maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi.
Maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær 23 ára karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot. Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa káfað á stúlku utanklæða og sleikt háls hennar þar sem hún lá sofandi inni í herbergi sínu en maðurinn var gestur í samkvæmi þar.

Atvikið átti sér stað þann 5. september á síðasta ári. Stúlkan hafði verið að halda upp á afmæli sitt en farið þaðan í miðbæ Reykjavíkur ásamt vinum og kærasta. Eftir það héldu nokkrir aðilar heim til stúlkunnar í eftirpartí.

Stúlkan varð töluvert ölvuð og ákvað því að fara að sofa á neðri hæð hússins. Um klukkustund síðar vaknaði hún upp við það að verið var að káfa á henni utanklæða og kyssa á henni hálsinn. Hélt hún fyrst að þar væri á ferð kærasti hennar en aðfarirnar voru þó ekki þær sem hún kannaðist við. Þess vegna opnaði hún augun og sá þá ókunnugan dreng sem hún þekkti ekki. Drengurinn var á nærbuxunum einum fata. Stúlkan fékk mikið áfall þegar hún sá hvernig í pottinn var búið og stormaði út úr herberginu í miklu uppnámi upp á efri hæð hússins þar sem kærasti hennar var ásamt gestum.

Maðurinn gekk á eftir stúlkunni upp stigann en þegar stúlkan sagði kærasta sínum hvað gerst hafði henti hann manninum út.

Maðurinn sagðist aldrei ætla að vinna stúlkunni mein. Hann viðurkenndi að hafa klætt sig úr öllum fötum nema nærbuxunum og stokkið upp í rúm. Þar hafi hann tekið utan um stúlkuna og spurt: „Ertu til í kallinn?". Það hafi hinsvegar ekki verið gert í kynferðislegum tilgangi heldur hafi einungis verið um grín að ræða. Þá neitaði hann að hafa káfað eða kysst stúlkuna.

Framburður stúlkunnar þótti trúverðugur á meðan framburður drengsins breyttist frá því í skýrslutöku hjá lögreglu þar til hann kom fyrir dómi.

Þótti hæfileg refsing sex mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingar þriggja mánaða haldi maðurinn skilorð í tvö ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×