Innlent

Ætlar að sitja áfram í stjórn VR

Bjarki Steingrímsson hefur látið af störfum sem varaformaður VR eftir að stjórn félagsins samþykkti tillögu um vantraust á fundi sínum fyrr í dag. Þrátt fyrir það ætlar hann að sitja áfram í stjórn VR.

Trúnaðarbrestur og samstarfsörðugleikar voru ástæðan fyrir því að stjórnin samþykkti tillöguna. Steininn tók úr þegar Bjarki hélt ræðu á útifundi á Austurvelli þann 5. desember þar sem hann „lítilsvirti ekki eingöngu störf eigin félags heldur verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni."

„Ég hef sem varaformaður gengið ansi hart fram í mínum málflutningi sem snýr að siðbót og gegnsæi gagnvart fjármunum félagsins og ég hef skapað mér gríðarlegra óvinsælda út á það innan stjórnarinnar," segir Bjarki sem var kjörinn varaformaður VR í vor. Hann segir að markmiðið hafi verið að gera félagið að öflugu félagi. Það hafi aftur á móti ekki gengið vel meðal annars vegna þess að meirihluti stjórnarinnar sé skipaður fólki frá formannstíð Magnúsar L. Sveinssonar og Gunnars Páls Pálssonar.

Bjarki segir að hann búist við að þetta myndi gerast. „Ég var aldrei í neinni vinsældakeppni heldur miklu frekar að fylgja eftir minni sannfæringu. Ég lít svo á að ég sé á háréttri braut." Engin siðbót hafi átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar og í íslensku samfélagi.




Tengdar fréttir

Stjórn VR lýsir vantrausti á eigin varaformann

Stjórn VR samþykkti tillögu um vantraust á Bjarka Steingrímsson sem varaformann stjórnar félagsins á fundi í hádeginu í dag. Ástæðurnar eru trúnaðarbrestur og samstarfsörðugleikar. Ásta Rut Jónasdóttir var kjörin nýr varaformaður á fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×