Innlent

Stjórn VR lýsir vantrausti á eigin varaformann

Kristinn Örn Jóhannesson er formaður VR.
Kristinn Örn Jóhannesson er formaður VR.
Stjórn VR samþykkti tillögu um vantraust á Bjarka Steingrímsson sem varaformann stjórnar félagsins á fundi í hádeginu í dag. Ástæðurnar eru trúnaðarbrestur og samstarfsörðugleikar. Ásta Rut Jónasdóttir var kjörin nýr varaformaður á fundinum.

Að mati stjórnar tók steininn úr þegar Bjarki hélt ræðu á útifundi á Austurvelli þann 5. desember þar sem hann lítilsvirti ekki eingöngu störf eigin félags heldur verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni, að fram kemur í tilkynningu frá stjórn VR.

Þar segir að eftir kosningar til stjórnar VR í vor hafi stjórnin skipt með sér verkum og falið Bjarka að fara með embætti varaformanns. Formaður VR sé talsmaður félagsins út á við en í forföllum hans sinni varaformaðurinn því hlutverki. Málfrelsi tíðkist innan stjórnar VR og ákvarðanir séu teknar á lýðræðislegan hátt. Mikilvægt sé að stjórnarmenn tali ekki gegn ákvörðunum stjórnar, sérstaklega sé mikilvægt að forsvarsmenn stjórnarinnar séu samstíga.

„Það hefur Bjarki ekki virt, að mati stjórnar. Hann hefur ítrekað, í nafni félagsins, talað gegn ákvörðunum stjórnar VR, bæði við fjölmiðla og annars staðar á opinberum vettvangi. Ummæli hans hafa iðulega komið formanni og stjórn í opna skjöldu. Þá hefur Bjarki dylgjað um meint leynimakk innan félagsins, farið með ósannindi og sakað samstjórnendur sína um blekkingar," segir í tilkynningunni.

Stjórnin segir að í ræðu sinni á Austurvelli fyrr í þessum mánuði hafi Bjarki talað með óviðeigandi hætti sem varaformaður stærsta stéttarfélags landsins. „Hann sakaði félagið og verkalýðshreyfinguna alla um að ganga erinda stjórnmálaflokka og vinna vísvitandi gegn hagsmunum félagsmanna. Sú staðhæfing er fráleit og eingöngu til þess fallin að mynda gjá milli félags og félagsmanna á tímum þegar samstaða skiptir öllu máli. "




Fleiri fréttir

Sjá meira


×