Innlent

ESB setur Króötum stólinn fyrir dyrnar

Evrópusambandið hefur frestað um óákveðinn tíma aðildarviðræðum við Króatíu vegna landamæradeilu Króata við Slóvena. Það gæti haft áhrif á mögulega aðildarumsókn Íslendinga en stækkunarstjóri Evrópusambandsins hefur sagt að Króatar færu næstir inn.

Evrópusambandið tilkynnti í morgun að næstu viðræðulotu fulltrúa sambandsins við Króata sem átti að hefjast á föstudaginn hefði verið aflýst. Það væri gert vegna þess að ekki hafi tekist að leysa landamæradeilu Króata við Slóvena en Slóvenía er aðili að ESB. Þetta mun mikið áfall fyrir Króata en ríkisstjórn Króatíu batt vonir við að hægt yrði að ljúka aðildarviðræðum fyrir næstu áramót og þannig myndi landið ganga í sambandið á næsta ári eða í síðasta lagi 2011.

Slóvenar og Króatar hafa átt í deilum um landamæri sín og sameiginleg hafsvæði síðan ríkin tvö lýstu yfir sjálfstæði frá fyrrum Júgóslavíu snemma á tíunda áratug síðustu aldar.

Í tilkynningu frá Evrópusambandinu, sem Tékkar eru nú í forsvari fyrir, segir að ákveðið hafi verið að hætta við næstu viðræðulotu þar sem ekki hafi tekist að leysa þær deilur sem nú beri hæst milli landanna. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og forysta þess hafi lagt mikið á sig til a finna lausn á málinu en það hafi ekki tekist.

Svíar taka við forystu í Evrópusambandinu í byrjun júlí og ætla þá að reyna að leysa deiluna.

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, hefur sagt að Króötum yrði veitt aðild að ESB á undan Íslendingum ef Ísland myndi sækja um aðild. Rehn sagði í morgun að ákvörðun sambandsins gagnvart Króatíu væri ekki endanleg. Enn væri mögulegt að Króatar kæmust í síðasta stig í aðildarviðræðum sínum fyrir áramót en hægt yrði að hefja aftur viðræður milli Króata og Slóvena auk þess sem Króatar tryggðu nauðsynlegar umbætur á innviðum í landinu sem auðveldaði aðild þeirra að sambandinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×