Innlent

Akureyrarbær þarf að greiða bætur vegna skipulagsklúðurs

Frá Akureyri.
Frá Akureyri.
Akureyrarbær var í dag dæmdur til þess að greiða rúmar 1.200.000 krónur vegna skipulagsklúðurs í íbúðarhverfi í bænum. Áður hafði bærinn greitt húseiganda 14 milljónir í bætur vegna málsins en það voru nágrannar húseigandans sem höfðuðu mál gegn bænum.

Upphaf málsins má rekja til þess að lóðareigandi Sómatúns 6 í Naustahverfi á Akureyri, Páll Alfreðsson, verktaki, hugðist vegna jarðhalla breyta hönnun einbýlishúss þannig að það yrði tveggja hæða en ekki á einni hæð eins og skipulag gerði ráð fyrir. Nágrannar kærðu en bærinn breytti deiliskipulagi og hefur málið síðan velst um í kerfinu í þrjú ár og valdið hörðum deilum.

Í janúar náði Páll samkomulagi við bæinn um 14 milljónir króna í bætur vegna klúðursins. Hann fær bara eina hæð en bærinn viðurkendi með bótunum eigin ábyrgð í því sem ekki er hægt að kalla annað en klúður.

Nágrannar Sómatúns 6 fóru í mál vegna klúðursins og féll dómur í málinu í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag. Bærinn þarf að greiða íbúa við Sómatún fjögur rúmar 127 þúsund krónur og hjónum á númer átta 257 þúsund. Þá var dánarbúi annars nágranna einnig dæmdar 135 þúsund krónur í bætur. Einnig var bænum skylt að greiða 175 þúsund krónur til hvers einstaklings í málskostnað.

Það var Þorsteinn Davíðsson sem kvað upp úrskurðinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×