Innlent

Hættur í Frjálslynda flokknum - hefur enga trú á þessu

Breki Logason skrifar
Magnús Þór Hafsteinsson fyrrum varaformaður og þingmaður Frjálslynda flokksins sagði sig úr flokknum í morgun. Hann segist telja að flokkurinn eigi enga framtíð en Magnús hefur gagnrýnt forystu flokksins mikið eftir afhroðið í síðustu kosningum. Þá fékk flokkurinn 2,2% fylgi og náði engum þingmanni inn. Magnús segir sóknarfæri í íslenskri pólitík og telur ekki ólíklegt að nýr flokkur verði stofnaður.

„Ég hef sagt það áður að ég hef verið ósáttur við flokkinn og forysta hans hefur gert alltof mörg mistök. Ég kallaði eftir því að auka landsþing yrði haldið þar sem flokkurinn yrði endurskipulagður. Það hefur ekki verið tekið mark á því. Forysta sem fer með flokk úr 7,3% niður í 2,2% hefur sáralítið fram að færa að mínu mati, ég hef því bara enga trú á þessu," segir Magnús.

Magnús segist einungis hafa verið að kalla eftir breytingum eins og gert sé allstaðar þegar flokkar lenda í áföllum svipuðum þeim sem frjálslyndir hafa gert upp á síðkastið.

„Þá er yfirleitt gengið í það verk að rétta skútuna við, það er hinsvegar ekki að sjá að slíkt standi til og ég bara nenni ekki að binda nafn mitt við þetta lengur."

Aðspurður hvort hann ætli að leita í aðra flokka segir Magnús að nú sé hásumar og hann sé ekkert að stressa sig á hlutunum. „Það er hinsvegar mikil upplausn á svona mið-hægri kanti stjórnmálanna og þar eru sóknarfæri. Ég tel því ekkert ólíklegt að einhver nýr flokkur verði stofnaður sem standi vörð um þau gildi sem gera okkur að þjóð, ég lýsi bara eftir slíkum flokki."

Magnús segist sjálfur ekki vilja lýsa því yfir að slíkur flokkur sé í burðarliðnum en hann hafi viðrað þessar skoðanir sínar upp á síðkastið. „Það væri ekkert ólíklegt að til þess kæmi. Það eru margir kjósendur þarna megin sem eru hálf heimilislausir eins og er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×