Innlent

Greiðsluverkfall yfirvofandi

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Hagsmunasamtök heimilanna kjósa nú um greiðsluverkfall.
Hagsmunasamtök heimilanna kjósa nú um greiðsluverkfall.

„Það kæmi mér á óvart ef almenningur myndi ekki taka sig saman og gera eitthvað í málunum," segir Þórður B. Sigurðsson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Samtökin héldu fundi víðsvegar um landið í gærkvöld þar sem fundarmenn samþykktu samhljóða ályktun um málefni heimilanna. Að sögn Þórðar fóru fundirnir vel fram. Flestir mættu á fund samtakanna í Reykjavík, um 50 manns, en hann fór fram í Reykjavík. Færri mættu á fundi þeirra á landsbyggðinni.

Í kjölfar fundanna fer fram rafræn kosning um það hvort stjórn samtakanna skuli beita sér fyrir hertari aðgerðum, eða greiðsluverkfalli. Niðurstaða kosningarinnar kemur í ljós innan tveggja sólarhringa.

Verður þá skipuð fimm manna verkfallsstjórn sem myndi skipuleggja og framkvæma verkfallsaðgerðirnar, kjósi félagsmenn svo.

Að sögn Þórðar geta allir sem vilja tekið þátt í greiðsluverkfalli á grundvelli persónulegrar ákvörðunar hvers og eins. Hann bendir þó á að hægt sé að styðja slíkar aðgerðir með ýmsum hætti öðrum en að takmarka afborganir eða leggja þær niður.

Þórður treystir sér ekki til að spá fyrir um fjöldann sem væri viljugur til að taka þátt í aðgerðunum. Hann segir ljóst miðað við opinberar tölur að mjög margir séu í þrengingum.

Þórður viðurkennir þó að aðgerðirnar séu ekki áhættulausar.

„Það er auðvitað viss hætta á því að þær valdi meira tjóni en þeim er ætlað að koma í veg fyrir. Þess vegna skiptir miklu máli að staðið sé að þessu með ábyrgum hætti og ítrustu varúðar sé gætt. Það verður auðvitað í höndum verkfallsstjórnar," segir Þórður og bætir við að lögfræðingur komi til með að sitja í verkfallsstjórninni.

„Við erum ekki að þessu til að valda tjóni, heldur til að koma í veg fyrir frekara tjón," segir Þórður að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×