Erlent

Kenningar Darwins of umdeildar fyrir Bandaríkjamenn

Kristnir Bandaríkjamenn eru ekki hrifnir af kenningum Darwins þó þessi mynd gefi annað til kynna.
Kristnir Bandaríkjamenn eru ekki hrifnir af kenningum Darwins þó þessi mynd gefi annað til kynna.

Framleiðendur bresku bíómyndarinnar Creation sem fjallar um ævi og störf Charles Darwin eru í vandræðum þar sem þeim hefur ekki tekist að finna dreifingaraðila að myndinni í Bandaríkjunum. Þar á bæ þykir efnið of eldfimt, en Darwin setti fyrstur manna fram þróunarkenninguna svokölluðu í bókinni Uppruni tegundanna.

Þau fræði eiga víst ekki upp á pallborðið víða í Bandaríkjunum en í nokkrum ríkjum er sköpunarkenningin úr Biblíunni sett skör hærra og kennd sem heilagur sannleikur. Samkvæmt Gallup könnun sem framkvæmd var á árinu trúa aðeins 39 prósent landsmanna á þróunarkenningu Darwins.

Myndin var opnunarmyndin á Toronto kvikmyndahátíðinni og hefur hún verið seld til flestra landa heimsins að Bandaríkjunum undanskyldum. Myndin hefur skapað miklar umræður á kristnum vefsíðum í Bandaríkjunum og þar eru hugmyndir Darwins kallaðar heimskulegar vangaveltur sem engin sönnun sé fyrir. Sömu síður efast hins vegar ekki um sannleiksgildi sköpunarkenningarinnar enda er sagt frá henni í Biblíunni.

Jeremy Thomas framleiðandi Creation segist furðu sleginn yfir málinu og að kenningar Darwins skuli enn vekja svo hörð viðbrögð í Bandaríkjunum, 150 árum eftir að hann sendi frá sér Uppruna tegundanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×