Innlent

Málþófið skipulagt upp á hverja mínútu

Alþingi. Mynd/ Valgarður.
Alþingi. Mynd/ Valgarður.
Stjórnarandstaðan styðst við stundaskrá um hver skuli ræða Icesave og hvenær. Einnig er tekið fram hverjir skuli veita ræðunni andsvar.

Blaðið hefur komist yfir eintak af stundatöflunum, þar sem tilgreindur er ræðumaður úr stjórnarandstöðu, hvenær ræða hans byrjar og hvenær henni lýkur; heildarlengd ræðutíma, lengd andsvara og hvaða tveir þingmenn úr stjórnarandstöðu skuli veita stjórnarandstöðuþingmanninum andsvar.

Þessi tiltekna stundatafla spannar tímann frá klukkan 16.00 síðastliðinn mánudag og til klukkan 01.30 um nóttina, en sú dagskrá riðlaðist reyndar, þar sem farið var að ræða um fjáraukalög.

„Þetta stríðir gegn anda þingskapalaga," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og finnst sorglegt að sjá hvernig tíminn fari forgörðum, þegar þingið standi frammi fyrir gríðarlega erfiðum málum. Þingsköp séu ekki þannig hugsuð að fólk sé í andsvörum við sjálft sig.

„Ég hef aldrei heyrt um það áður að menn séu með þaulskipulagt stundaplan um þófið. Það má kannski hrósa þeim fyrir þetta, hvað þau eru skipulögð, en þetta sýnir náttúrlega hvað er á ferðinni," segir fjármálaráðherra. Stjórnarandstaðan taki sér mikla ábyrgð með því að hindra réttkjörinn meirihluta þings að störfum. „Þetta er ekki það sem landið þarf á að halda," segir hann.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir stundaskrána til merkis um hversu góð samvinna sé um að draga fram alla þætti málsins.

Hún segir Icesave-málið þannig vaxið að það sé „einmitt sannfæringin sem dregur okkur áfram", spurð hvort það geri ekki lítið úr sannfæringu hvers og eins þingmanns, að veita andsvar samkvæmt stundatöflu.

„Mjög oft er fólk á staðnum sem langar til að taka þátt í umræðunni og þá gerir það bara það. Þá skiptir engu máli hvort það sé skráð með andsvar. Þetta er spilað eftir eyranu, þótt það liggi fyrir grunnplan. Ef einhver þarf að fara frá, þá bara annaðhvort skiptir hann við einhvern eða fer," segir Margrét.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki líta svo á að stjórnarandstaðan beiti málþófi. Það sé ríkisstjórnarinnar að skýra út hvers vegna hún setur eitt en ekki annað mál á dagskrá.

Spurður hvort hann telji að það sé í anda þingskapalaga að ákveða að veita andsvör við ræðu sem ekki hafi heyrst, segir Bjarni: „Þú verður að tala við einhverja þingreyndari menn um það en mig."

Samkvæmt þingskapalögum má forseti Alþingis leyfa þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum. Þar segir að andsvari megi einungis beina að máli ræðumanns, en ekki öðru andsvari.

klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×