Innlent

Íslendingar hafa þjóða mestar áhyggjur af einkafjárhag

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Af 17 þjóðum hafa Íslendingar hafa mestar áhyggjur af einkafjárhag sínum, samkvæmt viðamikilli alþjóðakönnun um fjármálakreppuna.

Þessar áhyggjur viðra Íslendingar í könnun ICM Research í Bretlandi sem er hluti af viðameiri könnun alþjóðakannanafyrirtækisins WIN. Könnunin nær til á fimmtánda þúsund einstaklinga í 17 löndum og benda niðurstöður hennar eindregið til þess að traust almennings á bönkum og fjármálastofnunum hafi rýrnað verulega.

Ísland er í fararbroddi hvað varðar áhyggjur af einkafjárhag og segir breska blaðið Guardian, sem greinir frá könnuninni í dag, það ekki koma á óvart. Indverjar eru á hinum endanum í þessum lið og hafa minnstar áhyggjur af fjármálum sínum. Þegar á heildina er litið eru það þó Bretar sem eru hvað mest uggandi um framtíðina og segir Guardian það sæta tíðindum að þar í landi hafi menn jafnvel minna traust á bankakerfinu en íbúar hins gjaldþrota Íslands.

Þegar þátttakendur voru beðnir að gefa ríkisstjórnum sínum einkunn fyrir frammistöðuna í kreppunni var nokkuð um fall. Breska ríkisstjórnin hlaut þar 4,5 í einkunn og sú íslenska 4,4.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×