Innlent

Brak af Álftanesi prýðir þingflokksherbergi

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Þór Saari hirti nokkrar spýtur úr húsrústunum á Álftanesi.
Þór Saari hirti nokkrar spýtur úr húsrústunum á Álftanesi. Mynd/Sigurjón
Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, fann óvenjulegt skraut fyrir þingflokksherbergi hreyfingarinnar. Hann gerði sér ferð að húsrústum Björns Mikkaelssonar á Álftanesi og hafði þaðan með sér nokkrar spýtur, sem nú eru niðurkomnar í þingflokksherberginu.

„Þetta er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, hún er í þingflokksherbergi Borgarahreyfingarinnar," segir Þór í samtali við fréttastofu, sem segist hafa verið beðinn um að koma með brakið í herbergið.

Eins og frægt er orðið reif Björn húsið sitt á þjóðhátíðardaginn, en hann hafði misst það eftir að hafa lent í greiðsluerfiðleikum. Síðar kom í ljós að Björn hafði áður haft milljónir af fimm manna fjölskyldu, sem hafði ætlað að kaupa innflutt einingahús af honum.

Aðspurður hvort Þór hafi fundist ástæða til að fjarlægja brakið eftir upp komst um svik mannsins segir hann skipta minna máli hvað menn hafi gert í fortíðinni. „Þegar menn fara með gröfu á tugmilljóna hús útaf ástandinu í þjóðfélaginu, þá segir sig sjálft að ástandið er slæmt."

Þór segist þó ekki hafa lesið fréttir um gjörðir mannsins.

Þór er nú staddur í London á leið til Suður Afríku, en þangað fer hann á vegum Efnahags- og framfarastofnunar OECD. Hann var í vinnu hjá OECD í París þegar hann var kjörinn á þing og segist þurfa að uppfylla samning þar sem rennur þó út á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×