Lífið

Jörundur fastráðinn í Borgarleikhúsið

Jörundur fer á samning í fyrsta skipti á ferlinum.
Fréttablaðið/Vilhelm
Jörundur fer á samning í fyrsta skipti á ferlinum. Fréttablaðið/Vilhelm

Jörundur Ragnarsson leikari hefur ráðið sig til tveggja ára hjá Borgarleikhúsinu. „Það leggst bara æðislega vel í mig,“ segir Jörundur. „Borgarleikhúsið er að gera góða hluti, fram undan eru frábær verkefni og ótrúlega spennandi vetur. Ég hlakka mikið til.“

Fyrsta verk Jörundar verður að leika í Heima er best, nýju írsku verki eftir Enda Walsh sem Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir. Aðrir leikarar eru Þröstur Leó Gunnarsson, Dóra Jóhannsdóttir og Gói, Guðjón Davíð Karlsson. Verkið fjallar um feðga sem sviðsetja fortíðina til að flýja raunveruleikann.

„Mig var farið að langa svolítið að leika meira í leikhúsi. Mig langaði að fá að prófa þetta að vera á samningi og leika og leika. Þetta er svo allt öðruvísi en að vera í bíói. Maður hefur náttúrlega verið í leikhúsi áður en ég hlakka til að fá að vinna með sama hópnum í einhvern tíma. Það er skemmtilegt fólk að vinna þarna.“

Þrjú ár eru síðan Jörundur útskrifaðist úr Listaháskólanum. Hann hefur aldrei verið á samningi áður, en hefur unnið talsvert í kvikmyndum og sjónvarpi, svo sem Nætur- og Dagvaktinni og kvikmyndunum Veðramótum, Reykjavík Rotterdam og Astrópíu. Hann sér ekki eftir lausamennskunni og segir starfið ekki hindra að hann sjáist í bíómyndum og þáttum næstu árin. Jörundur er nú við tökur á kvikmyndinni Bjarnfreðarson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.