Skoðun

Alhliða uppbygging heima fyrir

Um áratugaskeið hefur hnattvæddur nýkapítalismi ráðið ríkjum í heiminum. Hann hefur ýmsar hliðar, m.a. er hann í raun endurvakin nýlendustefna, að vísu aðlöguð nútímanum á yfirborði. En sem fjármála- og viðskiptastefna er nýkapítalisminn sýnu hömlulausari en sjálf afskiptaleysisstefnan „laissez - faire" á fyrri tíð. Nýkapítalisminn kom tiltölulega seint til Íslands, en nógu snemma til að gera Ísland gjaldþrota á nýliðnu ári með nokkuð augljósum aðdraganda, sem framar öðru fólst í viðvaningslegu fjármálafúski nýríkra manna, sem nefndir hafa verið útrásarvíkingar, en raunar einnig í því að stjórnvöld hafa um nærri tveggja áratuga skeið greitt götu fésýslumanna af þessu tagi.

Upphafsorsök þjóðargjaldþrots Íslendinga má rekja til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði (EES). Þá voru á einni örlaganóttu opnaðar allar gáttir verndaðs hagkerfis örþjóðar sem vegnaði ágætlega og hafði stjórn á sínum málum. Með EES-samningnum var fullveldi Íslands stórlega skert og framselt holt og bolt, þar á meðal þjóðleg stjórnartök á fjármálastjórn almennt og atvinnustefnu. Straumur fjármagnsins leitaði út úr landinu en varla að króna kæmi inn í landið nema á vegum álrisanna, sem ýmsir agnúast þó út í.

Þó ekki sé á að lítast á Íslandi nú, má ekki gleymast að heimskapítalisminn allur er í fjörbrotunum. Timburmenn eyðslu- og skuldafyllirís í hans anda þjakar vissulega íslensk heimili með alvarlegum afleiðingum.

Vel má vera að pólitísk ábyrgð á þessari þróun sé misjöfn, en skyldan er jöfn allra flokka, allra almannasamtaka, þegar til uppgjörs og úrbóta kemur. Sekir eiga að játa sekt sína. Og þeir sem hreinir þykjast af syndinni, ættu ekki að hreykja sér af dygðum sínum og hreinlífi. Oft er örstutt milli hreinlífisöfga og hræsni og endar iðulega í ofsóknum og hefndaraðgerðum eins og segir í vísu sveitarskáldsins: Gríðaröxin Giljótín/ gildum rökum þjónar./En éti bylting börnin sín,/blakta Naflaljónar.Tími rétttrúnaðar er ekki liðinn, ef út í það er farið, miðaldirnar líða seint. Yfirstéttin á Íslandi hefur gert sitt til að stofna til uppreisnarástands í landinu og innbyrðis beitir hún hefndaraðgerðum á víxl í stað þess að vinna saman.

Traust almennings á stjórnmálaflokkum er í lágmarki. Þetta vantraust á stjórnmálaflokkum bitnar auðvitað á Alþingi, grundvallarstofnun þjóðfélagsins, og alþingismönnum persónulega og án manngreinarálits. Og það er hverju orði sannara að alþingismenn í heild sinni verða að meta stöðu sína, átta sig á hvar þeir standa og hvað þeir mega sín yfirleitt.

Uppstokkun íslenskra stjórnmála felst fyrst og fremst í mannaskiptum, einkum í forustuliði stjórnmálaflokkanna, ekki í því að úthrópa flokkaskipulagið sem slíkt. En stjórnmálaflokkar eiga að hrista af sér klafa flokksgæðinga („flokkseigendanna") og umbreytast í virkan umræðuvettvang um þjóðmál, raunverulega grasrótarhreyfingu, sem einskorðar sig ekki við þröngt málefnasvið og kórréttar hugsanir, enda hlýtur málefnasvið alvörustjórnmálaflokka að vera vítt en ekki þröngt.

En íslensk endurreisn byggist ekki á áframhaldandi útrás fjármálavíkinga. Hún er fólgin í íslensku framtaki heima fyrir og eðlilegu fjárstreymi utan lands frá til uppbyggingar framleiðslu- og þjónustufyrirtækja, sem stuðla að atvinnuöryggi og réttlátri tekjuskiptingu.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins.








Skoðun

Sjá meira


×