Innlent

Fjölmiðlar um allan heim fjalla um endurfjármögnun bankanna

Óli Tynes skrifar
„Íslensku bankarnir eru að rísa eins og Fönix úr öskunni," sagði viðskiptasjónvarpsstöðin CNBC, í inngangi að viðtali við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, um endurfjármögnun íslensku bankanna. Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um málið.

Það er fjallað um endurfjármögnun íslensku bankanna frá Suðureyri til Shanghai. Margir fjölmiðlanna rekja aðdragandann að bankahruninu á Íslandi og hvernig landið hefur síðan verið að berjast fyrir lífi sínu.

Þess er meðal annars getið að erfiðleikarnir hafi meðal annars orðið til þess að Íslendingar ákváðu að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem hafi verið bannorð undanfarna áratugi.

Það virðist nokkuð almenn skoðun að þetta sé jákvætt fyrsta skref en aðeins fyrsta skref. Sársaukafullir tímar séu enn framundan á Íslandi.

Góðu fréttirnar séu þær, að íslenskir skattgreiðendur þurfa ekki að borga eins mikið til bankana og áður var talið. Talan 385 milljarðar króna var nefnd síðastliðið haust en í dag gætu þetta orðið 198 milljarðar króna ef allt fer á besta veg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×