Lífið

Lög um mannlegar hörmungar

Hallur og halldóra Hallur Ingólfsson og Halldóra Malín Pétursdóttir syngja saman á plötunni Disaster Songs.
fréttablaðið/vilhelm
Hallur og halldóra Hallur Ingólfsson og Halldóra Malín Pétursdóttir syngja saman á plötunni Disaster Songs. fréttablaðið/vilhelm

Hallur Ingólfsson, sem hefur trommað með rokksveitunum Ham og XIII, hefur gefið út sólóplötuna Disaster Songs. „Hún er um þessar mannlegu hörmungar, ástarsorg og ótta og þegar maður fórnar sér fyrir annað fólk,“ segir Hallur.

Hann segir að sérhver plata hafi oft eitt lag sem er niðurdrepandi en hann hafi ætlað sér meira. „Mig langaði að gera heila plötu þar sem allt væri ómögulegt en svo gæti manni liðið betur eftir að hafa hlustað. Útsetningarnar eru minimalískar og mystískar og þarna er svolítið óhreinn hljómur. Umfram allt eru þetta falleg, róleg lög í spennandi búningi,“ segir hann um gripinn.

Með honum á plötunni syngur Halldóra Malín Pétursdóttir sem hann kynntist í gegnum starf sitt fyrir leikhúsin en hann hefur bæði samið tónlist fyrir leikhús og stuttmyndir. Meðal annars samdi hann tónlist við stuttmyndina Töframanninn eftir Reyni Lyngdal og fékk fyrir hana tilnefningu til Eddu-verðlaunanna. „Ég kynntist Halldóru fyrir löngu síðan og hafði heyrt hana syngja. Ég vildi endilega fá hana til að syngja eitt lag og þegar ég heyrði útkomuna fannst mér eiginlega augljóst að hún kláraði dæmið með mér. Sem betur fer var hún til í það,“ segir hann.

Hallur heldur tvenna tónleika á næstunni, meðal annars á Græna hattinum á Akureyri á fimmtudaginn þar sem Lights on the Highway stígur einnig á svið. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.