Lífið

Frestar plötu vegna náms

Ísgerður Elfa stundar nám auk þess að semja efni fyrir barnaplötu og taka þátt í Wipeout.
Fréttablaðið/anton
Ísgerður Elfa stundar nám auk þess að semja efni fyrir barnaplötu og taka þátt í Wipeout. Fréttablaðið/anton

Leikkonan Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir hefur nóg á sinni könnu þessa dagana því auk þess að stunda nám við Háskóla Íslands vinnur hún að nýrri barnaplötu og er á leið til Argentínu sem þátttakandi í hinum vinsæla þætti Wipe­out.

„Ég hef verið að vinna að barnaplötu með frænda mínum, Magnúsi Jónssyni tónlistarmanni. Ég fékk hugmyndina þegar ég vann við Stundina okkar og í kjölfarið settist ég niður og samdi nokkra lagatexta og áður en ég vissi af var ég komin með texta við sextán lög,“ útskýrir Ísgerður Elfa. Hún segist hafa sótt innblástur í eigin barnæsku og fjallar einn textinn meðal annars um njósnafélag, en Ísgerður Elfa var meðlimur í einu slíku sem barn.

Til stóð að platan kæmi út fyrir jól en ákveðið hefur verið að fresta útgáfunni um óákveðinn tíma. „Við byrjuðum að vinna að plötunni núna í haust og ætluðum að gefa hana út fyrir jólin, en þar sem við erum bæði í námi þá urðum við að fresta því.“ Spurð hvort hún muni fylgja plötunni eftir með tónleikaröð segist hún ekki hafa hugsað út í það. „Við erum hvorki búin með plötuna né komin með útgefanda þannig að ég ætla að klára það fyrst áður en ég fer að skipuleggja tónleika,“ segir hún og hlær.

Ísgerður flaug til Argentínu nú í morgunsárið. Aðspurð segist hún fá í magann við tilhugsunina um það sem bíður hennar á Wipeoutbrautinni, en að hún hafi einfaldlega ekki getað sagt nei við annari eins ævintýraferð. „Ég er viss um að þetta verði mikið ævintýri og ég mundi líklega sjá mikið eftir því hefði ég afþakkað boðið. Vinir mínir eru sérstaklega spenntir og ég er ekki frá því að af öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur séu þeir spenntastir fyrir þessu,“ segir Ísgerður Elfa að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.