Lífið

Laddi lætur úlnliðsbrot ekki stoppa sig

Brotnaði heima
Laddi flækti sig í stóllöpp og setti vinstri höndina fyrir sig með þeim afleiðingum að hann úlnliðsbrotnaði. Hann ætlar þó að bíta á jaxlinn og leika Skrögg í Loftkastalanum um helgina.
Fréttablaðið/GVA
Brotnaði heima Laddi flækti sig í stóllöpp og setti vinstri höndina fyrir sig með þeim afleiðingum að hann úlnliðsbrotnaði. Hann ætlar þó að bíta á jaxlinn og leika Skrögg í Loftkastalanum um helgina. Fréttablaðið/GVA

„Ég flækti fótinn í einhverri stóllöpp og hrasaði bara," segir Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi. Hann úlnliðsbrotnaði heima hjá sér og er nú með vinstri höndina í gifsi. „Ég bar hana fyrir mig en maður er víst ekki jafn liðugur og í gamla daga heldur hlunkaðist ég bara niður með þessum afleiðingum."

Að sögn Ladda tekur brotið sex vikur að gróa og hann þakkar guði fyrir að hann var ekki búinn að panta sér golfferð eitthvert suður á bóginn.

„Nei, ég ætlaði reyndar að skoða það, að komast í golfferð þegar þessari törn lýkur loksins. Ég verð bara vonandi búinn að ná mér nógu snemma til að geta farið upp úr áramótunum." Þetta er reyndar í annað sinn á þessu ári sem Laddi slasar sig því hann marðist á rifbeini við tökur á slagsmálasenu fyrir kvikmyndina Jóhannes.

Og brotið hefði ekki getað komið á verri tíma því leikarinn er jú önnum kafinn við að bregða sér í allra kvikinda líki í jólasýningunni Skröggur sem sýnd er í Loftkastalanum. Þar leikur Laddi öll hlutverkin og því var ekki hægt að fá neinn staðgengil til að hlaupa í skarðið.

„Ég læt mig bara hafa það, leik þetta með höndina svona þótt þetta séu tvær sýningar." Til að bæta gráu ofan á svart er hann einnig veislustjóri á jólahlaðborði Hótels Sögu um helgina en það er engan bilbug á leikaranum að finna, hann hyggst bíta á jaxlinn og láta sig hafa það.

Þegar Fréttablaðið náði tali af leikaranum í gær var hann hins vegar staddur í tökum á Áramótaskaupinu. Og úlnliðsbrotið kom þar loksins að góðum notum ef svo mætti segja því hann leikur sjálfan forsetann, Ólaf Ragnar Grímsson.

„Já, gifsið kom ekki að sök þar heldur passar bara vel við hlutverkið, hann er hvort eð er alltaf í fatla annað slagið." freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.