Innlent

Framlög til fangelsa og dómstóla aukin

Plássið á Litla-Hrauni og í öðrum fangelsum landsins er löngu uppurið og því verður 107 milljónum varið í að koma upp sextán fangarýmum á gistiheimilinu Bitru.Fréttablaðið / gva
Plássið á Litla-Hrauni og í öðrum fangelsum landsins er löngu uppurið og því verður 107 milljónum varið í að koma upp sextán fangarýmum á gistiheimilinu Bitru.Fréttablaðið / gva

Auka á fjárveitingar til dómstóla og verja yfir 100 milljónum í fjölgun fangarýma á næsta ári. Þetta er meðal þess sem gert er ráð fyrir í breytingartillögum við fjárlagafrumvarp næsta árs, sem ræddar verða á Alþingi í dag.

Meðal annars er lagt til að fjárveitingar til héraðsdómstóla hækki tímabundið um 86 milljónir, í samræmi við þær breytingar sem gert er ráð fyrir í nýju frumvarpi um dómstólalög. Þar er kveðið á um að héraðsdómarar landsins skuli vera 43 fram til ársins 2013, í stað 38 eins og nú er, vegna mikillar fjölgunar dómsmála, meðal annars vegna bankahrunsins. Laun þessara fimm dómara til viðbótar nema 53 milljónum á ári, og auk þess er gert ráð fyrir 33 milljónum í laun fimm aðstoðarmanna dómara til viðbótar.

Nefndin leggur jafnframt til að fjárveitingar til Hæstaréttar verði hækkaðar um 16 milljónir til að takast á við aukinn málafjölda. Féð á fyrst og fremst að fara í að fjölga aðstoðarmönnum dómara. Þá er lagt til að útgjöld Hæstaréttar lækki um 8 milljónir, enda hefur kjararáð ákveðið að lækka laun hæstaréttardómara um 15 prósent, en í fjárlagafrumvarpinu gleymdist að reikna með því.

Á móti þessu á að hækka dómsmálagjöld umfram önnur gjöld.

Þá hefur verið ákveðið að leigja gistiheimilið Bitru og koma þar upp sextán fangarýmum. Kostnaðurinn við það er áætlaður 107 milljónir, þar af eru 18 milljónir í húsaleigu. Einnig hefur verið hætt við að skera niður framlög til meðferðargangsins á Litla-Hrauni, og eru 30 milljónir vegna hans lagðar til í breytingartillögunum.stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×