Innlent

Icesave deilan gríðarlega ójafn leikur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólöf Nordal er hneyksluð yfir kröfu Breta um að Íslendingar greiði lögmannskostnað þeirra.
Ólöf Nordal er hneyksluð yfir kröfu Breta um að Íslendingar greiði lögmannskostnað þeirra.
„Þetta er bara í takt við allt annað í þessu. Það er alveg sama hvað það er. Það er allt sett á okkur, bara allt," segir Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um þá kröfu Breta að Íslendingar greiði þeim 2 milljarða íslenskra króna vegna lögfræðikostnaðar þeirra af Icesavemálinu.

Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður greindi frá því á málstofu á vegum Háskóla Íslands í hádeginu í dag að Íslendingum væri ætlað að greiða þennan kostnað og frumvarp ríkisstjórnarinnar vegna samkomulagsins gerði ráð fyrir ríkisábyrgð á þeim greiðslum.

„Það væri fróðlegt að sjá hver kostnaður Íslendinga af þessum málarekstri hefði verið til samanburðar," segir Ólöf og bendir á að þá myndu menn fyrst sjá hverskonar kapp Bretar hafi lagt í málið. „Þeir hafa undirbúið sig gríðarlega vel og gert allt til að ná sínum rétti fram. Og mér finnst þetta hafa verið gríðarlega ójafn leikur," segir Ólöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×