Erlent

Þúsundir húsa gjöreyðilagðar

Fjölmennt björgunarlið var sent á vettvang strax á fimmtudag.Nordicphotos/AFP
Fjölmennt björgunarlið var sent á vettvang strax á fimmtudag.Nordicphotos/AFP

Meira en 400 þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín eftir að harður jarðskjálfti varð í suðvestanverðu Kína á fimmtudag. Hamfarirnar kostuðu einn mann lífið og hundruð manna slösuðust, þar af nokkrir tugir alvarlega.

Jarðskjálftinn mældist 6 stig og upptök hans voru í Yao‘an-sýslu í Yunnan-héraði. Kínverska fréttastofan Xinhua fullyrti að 18 þúsund íbúðarhúsa væru gjöreyðilögð og 75 þúsund skemmd.

Margir íbúanna lögðust til svefns úti á götu, en aðrir komu sér upp bráðabirgðatjöldum þar sem aðstæður leyfðu.

Einhver hluti þeirra sem flúðu úr húsum sínum getur þó snúið aftur, því margir þora ekki annað en að hafast úti við þótt húsin séu heil.

Átta eftirskjálftar höfðu riðið yfir í gær, sá stærsti 5,2 stig seint í gær. Jarðskjálftar eru algengir í Yunnan, sem er fjallahérað norður af Taílandi og Búrma. Árið 1988 fórust 930 manns þegar jarðskjálfti, sem mældist 7,1 stig, skók héraðið.

Árið 1970 fórust 15 þúsund manns þegar enn stærri jarðskjálfti reið þar yfir, en hann mældist 7,7 stig. Stjórnvöld þá reyndu að gera sem minnst úr tjóninu opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×