Innlent

Geislasteinarnir gufaðir upp

Geislasteinar Steina frá Teigarhorni er að finna í öllum stærstu náttúruminjasöfnum heims.
Geislasteinar Steina frá Teigarhorni er að finna í öllum stærstu náttúruminjasöfnum heims.

Rannsókn lögreglunnar á Eskifirði á innbroti og þjófnaði úr steinasafninu á Teigarhorni við Djúpavog hefur engum árangri skilað. Um 500 geislasteinum var stolið úr safninu um miðjan október að verðmæti fimmtán til tuttugu milljónir króna.

Jónína Ingvarsdóttir, ábúandi á Teigarhorni og einn eigenda steinasafnsins, segir að vonir hafi verið bundnar við að steinarnir kæmu fram vegna þess hversu umfang þeirra er mikið. Þyngsti steinninn sem var numinn á brott var tugir kílóa að þyngd. Sú kenning að steinarnir hafi verið seldir úr landi eða þeim stolið fyrir erlendan steinasafnara, virðist líklegri með hverjum deginum, segir Jónína.

Eins og sagt var frá í fréttum í október var brotist inn þegar ábúendur á Teigarhorni voru fjarverandi. Þeir sem þar voru á ferð tóku sér góðan tíma í safninu því steinunum var pakkað inn til flutnings. „Þeir komu hingað til að taka steinana og voru vel undirbúnir. Hvaða þjófar tækju sér góðan tíma í að stela steinum en láta tómt íbúðarhús eiga sig,“ spyr Jónína.

Steinarnir voru ótryggðir og því er missirinn mikið fjárhagslegt áfall fyrir Jónínu og hennar fólk. Hins vegar er missirinn ekki minni fyrir íslenska þjóð. Steinarnir eru einstök náttúrugersemi á heimsvísu og hafa verið eftirsóttir af jarðvísindamönnum, háskólum og áhugafólki um steindafræði í tugi ára.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×