Erlent

Svínum slátrað í Egyptalandi

Bændur koma í veg fyrir slátrun
Bændur í Egyptalandi stöðvuðu fulltrúa stjórnvalda sem ætluðu að slátra öllum svínum í landinu.fréttablaðið/AP
Bændur koma í veg fyrir slátrun Bændur í Egyptalandi stöðvuðu fulltrúa stjórnvalda sem ætluðu að slátra öllum svínum í landinu.fréttablaðið/AP

Viðbrögðin við svínaflensu eru ekki á sama veg í öllum ríkjum heims. Í Egyptalandi tóku stjórnvöld þá ákvörðun að slátra skyldi öllum svínum í landinu, en þau eru samtals 300 þúsund.

Bændur í Egyptalandi reyndust þó engan veginn sáttir við þessa ákvörðun og hafa reynt að hindra framkvæmd hennar eftir bestu getu.

Asíuríki hafa hins vegar brugðist öðruvísi við. Þau telja sig hafa lært ýmislegt af tveimur faröldrum sem þar hafa geisað undanfarinn áratug. Annars vegar er þar átt við fuglaflensuna, hins vegar HABL-faraldurinn svonefnda, en sú skammstöfun stendur fyrir heilkenni alvarlegrar bráða-lungnabólgu.

„Ef eitthvað gott hefur komið út úr HABL-faraldrinum og fuglaflensunni er það að við erum betur undirbúin í Kína og einnig annars staðar í heiminum,“ segir Hans Troedsson, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Peking.

„Það sem mestu skiptir er að almenningur skilji ástandið,“ segir hann. „Besta leiðin til þess er að veita upplýsingar. Það er lexían sem við lærðum í Víetnam og víðar.“

HABL-faraldurinn varð nærri 800 manns að bana árið 2003, en fuglaflensan hefur kostað samtals meira en 250 manns lífið undanfarin ár.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×