Innlent

Ríkisendurskoðun fær bókhald flokkanna til skoðunar

Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri hreyfingin - grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn hafa ásamt Borgarahreyfingunni undirritað samkomulag um að Ríkisendurskoðun verði falið, með sérstakri lagaheimild, að veita viðtöku og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200.000 kr. eða meira á árunum 2002 til 2006 að báðum árum meðtöldum.

Í tilkynningu segir að tímabilið nái til þess tíma þegar lög nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra tóku gildi. Miðast þetta tímabil við geymsluskyldu bókhaldsgagna samkvæmt lögum um bókhald.

Með yfirlýsingunni skuldbinda framangreind stjórnmálasamtök sig, að lagaheimild fenginni, til að veita Ríkisendurskoðun samkvæmt bestu vitneskju allar fyrirliggjandi upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra á umræddu tímabili, auk upplýsinga um önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200.000 kr. eða meira.

Með yfirlýsingunni lýsa framangreind stjórnmálasamtök jafnframt vilja sínum til þess að Ríkisendurskoðun verði, með sérstakri lagaheimild, veitt heimild til að veita viðtöku og birta upplýsingar um framlög til einstakra frambjóðenda vegna forvala eða prófkjara innan stjórnmálasamtaka fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar á tímabilinu frá 1. janúar 2005 - 31. maí 2007, eða til þess tíma er lög nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, tóku gildi enda fari slík úrvinnsla og birting upplýsinga fram með fullu samþykki og þátttöku viðkomandi frambjóðanda.

Loks lýsa aðilar vilja sínum til þess að Ríkisendurskoðun verði með lögum veitt sams konar heimild til að taka við og birta upplýsingar um framlög til einstakra frambjóðenda vegna kosninga til æðstu embætta innan stjórnmálasamtaka á árunum 2005 til 2009 að báðum árunum meðtöldum. Fái Ríkisendurskoðun slíka lagaheimild skora stjórnmálasamtökin á frambjóðendur sína að veita stofnuninni allar fyrirliggjandi upplýsingar um framlög til þeirra á umræddu tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×