Innlent

Ekki virkjað nema annað bregðist

þeistareykir Ekki á að virkja í Gjástykki nema annað bregðist. Ef borholur verða ekki nýttar sem vinnsluholur verður gengið frá eins og að var komið.
fréttablaðið/völundur
þeistareykir Ekki á að virkja í Gjástykki nema annað bregðist. Ef borholur verða ekki nýttar sem vinnsluholur verður gengið frá eins og að var komið. fréttablaðið/völundur

Landsvirkjun hyggst bora þrjár rannsóknarborholur við Gjástykki í Þingeyjarsveit. Umhverfis-áhrif vegna framkvæmdanna eru talin óveruleg, samkvæmt frummatsskýrslu Mannvits verkfræðistofu.

Umhverfisáhrif sem talin eru upp í skýrslunni eru helst þau að áhrif á nútímahraun, sem verndað er samkvæmt lögum, verða nokkuð neikvæð. Hins vegar er talið að skaðinn sé afturkræfur. Einnig er talið að sjónræn áhrif gufustróks vegna borananna verði nokkuð neikvæð. Áhrif á gróður og lífríki eru talin óveruleg.

Borunin er liður í samstarfi Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. um rannsóknir og könnun á virkjunarmöguleikum háhitasvæða á Norðausturlandi. Ekki verður virkjað í Gjástykki nema hin svæðin, Krafla, Þeistareykir og Bjarnarflag, gefi ekki nægjanlega orku fyrir starfsemi og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Ef rannsóknarboranir leiða í ljós að borholur verði ekki nýttar sem vinnsluholur verður gengið frá svæðinu. Við frágang yrðu ummerki fjarlægð og svæðið fært í fyrra horf eins og mögulegt er, samkvæmt skýrslunni.

Skýrslan liggur nú til kynningar á skrifstofu Þingeyjarsveitar, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Allir geta kynnt sér hana og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 28. ágúst til Skipulagsstofnunar.- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×