Innlent

Sársaukafull hagræðing í velferðarmálum

Í erfiðum efnahagsaðstæðum verður að forgangsraða í þágu velferðar með áherslu á börnin, segir borgarfulltrúi VG.Fréttablaðið/Stefán
Í erfiðum efnahagsaðstæðum verður að forgangsraða í þágu velferðar með áherslu á börnin, segir borgarfulltrúi VG.Fréttablaðið/Stefán

Algerlega óásættanlegt er að borgarstjórnarmeirihlutinn fari í sársaukafulla hagræðingu í velferðarmálum, þvert á það sem talað hafi verið um, segir borgarfulltrúi Vinstri grænna.

„Við viljum að við þessar erfiðu aðstæður sé forgangsraðað í þágu velferðar, með áherslu á börnin,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík.

Þorleifur segir að þó að samkvæmt fjárhagsáætlun renni fleiri krónur til velferðarmála í Reykjavík á næsta ári en í ár séu bætur til einstaklinga síður en svo að hækka. Í raun þurfi að draga úr útgjöldum og hagræða í velferðarmálum.

Samkvæmt fjárhagsáætlun velferðarsviðs aukast fjárframlögin um 815 milljónir milli ára. Þorleifur segir að sú aukning fari að megninu til í að greiða fleiri einstaklingum húsaleigubætur.

Þá hafi ekki verið tekið tillit til verðlagsbreytinga milli ára, annað árið í röð. Eðlilegt væri að reikna verðbætur á útgjöldin þar sem verðhækkanir hafi augljóslega áhrif á útgjöld til velferðarmála. Þar sem það hafi ekki verið gert sé framlagið í raun að lækka milli ára.

„Vegna þessa verður að hagræða á velferðarsviði, og starfsfólk hefur staðið í ströngu við að skera niður útgjöldin,“ segir Þorleifur. „Það er búið að skera alla fituna fyrir löngu, nú er komið að sársaukafullri hagræðingu.“

Þorleifur segir að útgjöld borgar­innar myndu aukast um 230 til 240 milljónir króna á ári ef hækka ætti hámarks fjárhagsaðstoð til einstaklinga um átján þúsund krónur á mánuði, eins og borgarfulltrúar Vinstri grænna hafa lagt til. Aðstoðin er nú að hámarki 115.567 krónur á mánuði.

Fjár fyrir þessari útgjaldaaukningu megi afla með því að hækka útsvarið í leyfilegt hámark, 13,28 prósent. Það myndi auka tekjur borgarinnar um 720 til 740 milljónir króna á ári, en hækka skattgreiðslur einstaklings með 500 þúsund krónur í mánaðartekjur um 1.250 krónur á mánuði.

Ekki náðist í Jórunni Frímannsdóttur, formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar, við vinnslu fréttarinnar í gærkvöldi.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×