Erlent

Fimm ára lét innbrotsþjóf heyra það

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Chloe litla ásamt föður sínum.
Chloe litla ásamt föður sínum.

Fimm ára gömul stúlka í Middlesbrough á Englandi lét engan bilbug á sér finna þegar hún kom að innbrotsþjófi á heimili sínu og las honum pistilinn. Sú litla, sem heitir Chloe Edwards, heyrði skarkala í eldhúsinu niðri um tvöleytið í fyrrinótt. Hún rölti niður og kom að ókunnugum manni í eldhúsinu en sá otaði stærðar saxi að henni og bað hana að hafa sig hæga. Chloe lét slíkt ekki aftra sér og hrópaði á manninn fullum hálsi að leggja bíllykla föður hennar frá sér. Við það vöknuðu foreldrar stúlkunnar og komu hlaupandi niður. Innbrotsþjófurinn sagðist þá aðeins hafa ætlað að ná sér í ísmola og henti fjölskyldufaðirinn honum þegar út um bakdyrnar. Maðurinn lét það ekki aftra sér heldur tók þegar til við að reyna að komast inn um aðaldyrnar á nýjan leik. Húsbóndinn hafði þá hringt á lögreglu sem kom von bráðar og greip þrjótinn glóðvolgan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×