Lífið

Of gott til að sitja á þessu ein

Hildur Halldóra Karlsdóttir gefur út bækur ásamt manni sínum.fréttablaðið/vilhelm
Hildur Halldóra Karlsdóttir gefur út bækur ásamt manni sínum.fréttablaðið/vilhelm

„Við gáfum fyrst út bókina Stattu með þér, sem eigin­maður minn, Gunnar Hrafn Birgisson, skrifaði árið 1998. Seinna gáfum við út spilið Skilaboð frá hulduheimum auk bókarinnar Þín hjartans þrá sem kennir mjög merkilega lífsspeki um það hvernig fólk geti unnið að draumum sínum. Ástæðan fyrir því að ég þýddi hana var sú að mér fannst þetta einum of gott efni til að halda þessu fyrir sjálfa mig,“ segir Hildur Halldóra Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur og bókaútgefandi, en hún og eiginmaður hennar stofnuðu bókaútgáfuna Upptök ehf. fyrir rúmum tíu árum.

Hildur Halldóra, sem er móðir leikkonunnar Ísgerðar Elfu, lauk nýverið við að þýða þriðju bókina, sem ber titilinn Karlmenn, peningar og súkkulaði. „Þessi bók er ólík fyrri bókunum sem við höfum gefið út. Þetta er saga um konu sem er að fást við sitt daglega líf, bókin hefur farið sigurför um heiminn og er gefin út í nítján löndum,“ segir Hildur. Aðspurð segir hún ekki erfitt að starfa með eiginmanni sínum.

„Maðurinn minn er sálfræðingur þannig að við deilum þessum áhuga á andlegum málefnum. Hann hefur verið duglegur að lesa yfir bækurnar og það er mikill stuðningur í því,“ segir Hildur að lokum.

Karlmenn, peningar og súkkulaði kemur í verslanir í næstu viku og verður til sölu í Eymundsson, versluninni Betra líf, Ditto og Gjöfum Jarðar auk annarra verslana. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um bókina á fésbókarsíðu Upptaka. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.