Lífið

Snýr aftur á heimaslóðir

allen og rachel Leikstjórinn vinsæli ásamt Ewan Rachel Wood sem leikur í svörtu kómedíunni Whatever Works.
Nordicphotos/Getty
allen og rachel Leikstjórinn vinsæli ásamt Ewan Rachel Wood sem leikur í svörtu kómedíunni Whatever Works. Nordicphotos/Getty

Svarta kómedían Whatever Works er fyrsta myndin sem Woody Allen tekur upp í New York, í fimm ár. Með aðalhlutverkið fer Larry David, maðurinn á bak við Curb Your Enthusiasm.

Larry David leikur sérvitran New York-búa úr yfirstéttinni sem ákveður að snúa baki við sínu ljúfa lífi og gerast utangarðsmaður. Hann hittir stúlku frá Suðurríkjunum (Ewan Rachel Wood) og eftir að hafa umgengist hana og fjölskyldu hennar uppgötvar hann að bóhemlífið er ekki eins áhyggjulaust og hann sá fyrir sér.

Larry David sló í gegn með sjónvarpsþáttum sínum Curb Your Enthusiasm og miðað við frammistöðu sína þar ætti hann ekki að eiga í erfiðleikum með að leika sömu taugaveikluðu persónuna og Woody Allen hefur haft einkaleyfi á til þessa. David er einnig maðurinn á bak við Seinfeld-þættina sem hafa notið gríðarlegra vinsælda, þar sem hinn taugaveiklaði George Costanza var í raun framlenging á David sjálfum. Eins og við er að búast þegar grínmeistarar eins og Allen og David snúa saman bökum, má búast við því að útkoman verði skemmtileg.

Ewan Rachel Wood, sem leikur á móti David, er ein efnilegasta leikkonan í Hollywood. Hún sló í gegn í The Wrestler en hafði áður vakið athygli í Across the Universe og King of California.

Fimm ár eru liðin síðan Woody Allen tók upp mynd í heimaborg sinni New York. Það var gamanmyndin Melinda and Melinda með Will Ferrell í einu aðalhlutverkanna. Eftir það ákvað hann að flytja sig um set til Evrópu þar sem hann átti auðveldara með að fjármagna myndir sínar. Þar tók hann upp fjórar myndir bæði á Englandi og Spáni og hlaut sú síðasta, Vicky Cristina Barcelona, bestu viðtökurnar. Í þremur þessara mynda lék Scarlett Johansson eitt aðalhlutverkanna en hún er fjarri góðu gamni í Whatever Works.

Næsta mynd Woodys Allen nefnist You Will Meet a Tall Dark Stranger þar sem Anthony Hopkins og Naomi Watts fara með stór hlutverk. Tökur fóru fram í London og því ljóst að leikstjórinn knái hefur síður en svo sagt skilið við Evrópu þrátt fyrir sína nýjustu New York-mynd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.