Stjórn KSí hyggst ekki aðhafast frekar í máli fjármálastjóra sambandsins en hann heimsótti strípibúllu í Sviss fyrir fjórum árum þar sem hann notaði greiðsluskort KSÍ. Fjármálastjórnin mun því starfa áfram hjá sambandinu. Stjórnin harmar tildrög málsins og biður þjóðina, knattspyrnuhreyfinguna og aðildarfélög sín afsökunar á því.
„Stjórn KSÍ hefur móttekið afsökunarbréf fjármálastjórans, dags. 17. nóvember 2009 þar sem hann harmar að nafn KSÍ hafi fengið neikvæða umfjöllun vegna málsins en jafnframt ítrekar hann sakleysi sitt hvað varðar notkun kortsins. Eftir að hafa rætt málavexti á fundi sínum þann 19. nóvember 2009 og í ljósi þess að starfsmaðurinn var áminntur á sínum tíma mun stjórnin ekki aðhafast frekar í máli hans,“ segir í tilkynningu frá stjórn KSÍ.
Þar segir jafnframt að samkvæmt lögum KSÍ ber því að vera leiðandi afl fyrir íslenska knattspyrnu og fulltrúum þess ber að koma fram af heiðarleika og sýna gott siðferði. „Í því tilfelli sem hér um ræðir missteig fjármálastjórinn sig og hlaut refsingu sem metin var hæfileg á þeim tíma. Það er staðföst skoðun KSÍ að gott siðferði sé mikilvægt veganesti í starfi íþróttahreyfingarinnar en það er ekki síður mikilvægt að þegar menn hafa misstigið sig og tekið út sinn dóm að horfa fram á veginn, fyrirgefa og læra af þeim mistökum sem gerð voru.“
Þá kemur fram í tilkynningunni að stjórn sambandsins hefur ákveðið að skipa starfshóp með það að markmiði að nýjar siðareglur KSÍ taki gildi 1. janúar næstkomandi. „Stjórn KSÍ mun síðan standa fyrir kynningu á þeim reglum en markmiðið er ávallt að fulltrúar KSÍ séu til sóma á innlendum sem erlendum vettvangi.“