Innlent

Ekki kunnugt um sérréttindi ráðherra

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Mynd/Anton Brink

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að sér hafi ekki verð kunnugt að ríkið kaupi ótekið orlof af ráðherrum líkt og kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann telur eðlilegt að farið verði yfir málið.

Í fréttinni kom fram að ríkið kaupi ótekið orlof af ráðherrum en annað gildir um almenning. Í lögum um orlof segir að framsal orlofslauna og flutningur milli orlofsára sé óheimill. Þetta kemur einnig fram í reglum kjararáðs sem meðal annars ákveður laun ráðherra.

Aftur á móti segir í reglum um ráðherraorlof frá 1992 að tæmi ráðherra ekki orlofsrétt sinn fyrir 30. apríl ár hvert skuli hann fá ótekna orlofsdaga greidda. Eftir því sem fréttastofa kemst næst þá hefur verið unnið samkvæmt þessum reglum æ síðan og er algengt að sumarfrí ráðherra sé greitt út að hluta.

„Ég verð að viðurkenna að ég var ekki meðvitaður um það hvernig þetta væri,“ segir Steingrímur. Hann hefði því ekki leitt hugann af umræddum réttindum ráðherra.

Áður en hann tjáir sig frekar um málið vill Steingrímur fá að kynna sér reglurnar og bakgrunn þeirra. Hann telur þó eðlilegt að farið verði yfir málið.


Tengdar fréttir

Leynileg sérréttindi ráðherra

Ríkið kaupir ótekið orlof af ráðherrum, en annað gildir um almenning. Formaður BSRB segir óeðlilegt að ráðherrar setji sérreglur um sjálfa sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×