Lífið

Frikki býður Barack Obama í mat

Friðrik Weisshappel hyggst birta boðskortið í heilsíðuauglýsingu í Politiken. Þar kemur fram að Barack Obama og eiginkonu hans sé boðið í hamborgara. Geti þau ekki mætt núna þá eigi þau það inni þegar þau mæta á loftslagsráðstefnuna í desember.
Friðrik Weisshappel hyggst birta boðskortið í heilsíðuauglýsingu í Politiken. Þar kemur fram að Barack Obama og eiginkonu hans sé boðið í hamborgara. Geti þau ekki mætt núna þá eigi þau það inni þegar þau mæta á loftslagsráðstefnuna í desember.

Fyrirmenni heimsins eru tekin að safnast saman í Kaupmannahöfn þar sem Alþjóðaólympíunefndin situr á rökstólum og skeggræðir hvaða borg fær að halda Ólympíuleikana 2016. Íslenskur veitingamaður í borginni hefur boðið forseta Bandaríkjanna í hamborgara af því tilefni.

„Ég reikna ekki með að gera þetta aftur þótt auðvitað eigi maður aldrei að segja aldrei," segir Friðrik Weisshappel, eigandi kaffihússins Laundromat við Arhusgade í Kaupmannahöfn. Hann, líkt og danska þjóðin, er ákaflega spenntur fyrir komu Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna. Friðrik hefur ákveðið að bjóða honum og eiginkonu hans, Michelle, í hamborgara enda sé Barack búinn að lýsa því yfir að hann sé mikill aðdáandi þess vinsæla réttar.

Til þess að skötuhjúin sjái nú örugglega boðskortið frá Friðriki hafa starfsmenn Laundromat hengt boðskortið upp um alla borg og loks ætlar Friðrik að birta heilsíðuauglýsingu í stórblaðinu Politiken á föstudaginn þegar Barack mætir á svæðið.

„Það er góður íslenskur siður að bjóða fólki sem maður kann vel við í mat og ég kann bara ákaflega vel við þau hjónin," segir Friðrik sem hefur fengið mikil viðbrögð við þessu uppátæki sínu frá íbúum Kaupmannahafnar.

Friðrik segir kostnað við heilsíðuauglýsingu í Politiken vera töluverðan og kannski ekki alveg í takt við kreppuna. Hann hafi þó náð að prútta verðið aðeins niður. „Þetta er bara svona „once in a lifetime"-dæmi og ef þetta fær fólk til að brosa og hlæja þá er tilganginum náð," útskýrir Friðrik. Hann bætir því við að hann sé ekkert sérstaklega vongóður um að forsetinn mæti í matinn en hann liggi þó á bæn. „Ef hann getur ekki mætt núna þá stendur honum til boða að mæta í desember þegar loftslagsráðstefnan verður haldin hérna."

freyrgigja@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.