Innlent

Ofbeldismaður víki í stað brotaþola

Ásu Ólafsdóttur, aðstoðarmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra.
Ásu Ólafsdóttur, aðstoðarmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra.

Unnið er að lögfestingu brottvísunar eða „austurrísku leiðarinnar" í dómsmálaráðuneytinu. Þetta kom fram í máli Ásu Ólafsdóttur, aðstoðarmanns dómsmála- og mannréttindaráðherra, á fræðafundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík í gær. Aðrir frummælendur á fundinum voru Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

Ísland er nú eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur brottvísunar­úrræði í lögum.

Ása telur að brottvísunarákvæðið styrki verulega lög um nálgunar­bann sem tóku gildi í upphafi þessa árs. Hún telur nauðsynlegt að brottvísunarákvæðið fylgi nálgunarbanninu og bendir á að í nágrannalöndum okkar hafi brottvísunarákvæðið komið í kjölfar lagasetningar um nálgunarbann.

Ása telur brottvísunina gott tæki en spáir því jafnframt að það verði ekki mikið notað.

Stefán Eiríksson telur að brottvísunarákvæðið hafi reynst vel í þeim löndum þar sem það hefur verið tekið upp. Hann tók undir það sjónarmið Ásu að líklegt væri að brottvísunarákvæðinu yrði beitt í fáum tilvikum en aðeins eitt tilvik þar sem brottvísun væri lausn réttlætti lögleiðingu hennar.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvenna­athvarfsins, benti á að ábyrgðin ætti að liggja þar sem hún ætti heima, hjá ofbeldis­manninum. Að hennar mati er það óviðunandi að kona sem verði fyrir heimilisofbeldi, og börn hennar, þurfi að glíma við hvunndaginn í framandi umhverfi á sama tíma og tekist er á við gerbreyttar aðstæður og framtíðarsýn, eins og gerist hjá konu sem hefur ákveðið að segja skilið við heimilisofbeldi.

Sigþrúður leggur áherslu á að ofbeldismaður sé fjarlægður af heimili en að honum sé boðin hjálp til að takast á við erfiðleika sína og jafnvel athvarf til að búa í. - ss










Fleiri fréttir

Sjá meira


×