Innlent

Kaupþingsgögnin skiptu litlu

Ólafur Þór Hauksson
Ólafur Þór Hauksson

Umræða vegna tafa á afhendingu svokallaðra Kaupþingsgagna, frá ríkissaksóknara til embættis sérstaks saksóknara, er smámál sem slík, segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari vegna bankahrunsins. Engir rannsóknarhagsmunir hafi spillst. Gögnin sem um ræðir fjalla um niðurfellingu á persónulegum ábyrgðum lykilstarfsmanna Kaupþings.

„Könnun á þessu starfsmannamáli var löngu hafin áður en þessi kæra kom í maí. Hún breytti engu um það," segir hann.

Valtýr Sigurðsson ríkis­saksóknari sagði hér í blaðinu 13. júní að sérstakur saksóknari hefði sótt gögnin í vetur. „Eitt af fyrstu verkum sérstaks saksóknara var að sækja bankamálin til mín og þar á meðal þetta mál," sagði hann.

Ólafur Þór kannast ekki við þetta. „Við áttum fund með ríkissaksóknara þann 10. febrúar og tókum það sem okkur var afhent en þetta var ekki í því," segir hann. Spurður hverju þetta kunni að sæta segist Ólafur ekki vita það. „Ég held að það hafi hreinlega orðið mannleg mistök," segir Ólafur Þór.

Annars sé þessi umræða óheppileg „því hún gefur til kynna að einhverjir brestir séu í réttarvörslukerfinu, einmitt þegar við þurfum að sýna styrk".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×