Lífið

Rússarnir vilja meira samstarf

Leikstjórinn Alexander Sokurov var mjög ánægður með dvöl sína á Íslandi rétt eins og aðrir úr tökuliði Faust.
Leikstjórinn Alexander Sokurov var mjög ánægður með dvöl sína á Íslandi rétt eins og aðrir úr tökuliði Faust.

„Þeir voru rosalega hrifnir. Við höfum verið samræðum við framleiðendurna og þeir hafa mikinn áhuga á áframhaldandi samstarfi,“ segir Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá Saga Film. Tökum á rússnesku stórmyndinni Faust lauk hér á landi á dögunum, eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu. Íslensk náttúra var notuð í síðustu fimmtán mínútum myndarinnar og fóru tökur fram í hrauni skammt frá Bláa lóninu, á Þingvöllum og víðar.

Tökudagarnir voru sjö talsins og kom hingað til lands fjölmennt tökulið. Nemur framleiðslukostnaður Faust hundruðum milljóna, enda er hún ein stærsta rússneska myndin á þessu ári.

„Ég er hugsanlega að fara að hitta þá í Rússlandi fyrir áramót. Við ætlum að ræða um hvort myndir yrðu áfram teknar á Íslandi, í Rússlandi eða annars staðar í Evrópu. Þetta er bara á fyrstu stigum en áhuginn hjá þeim er mikill,“ segir Kristinn um hugsanlegt samstarf Saga Film við Rússana.

Leikstjóri Faust er Alexander Sokurov, einn virtasti kvikmyndagerðarmaður Rússlands. Hann var mjög ánægður með dvöl sína á Íslandi, rétt eins og kvikmyndatökumaðurinn Bruno Delbonnel sem síðast myndaði nýjustu Harry Potter-myndina og hefur tvívegis verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna.

Sigurður Skúlason fer með aukahlutverk í myndinni, auk þess sem leiklistarnemarnir Svandís Dóra Einarsdóttir og Hilmar Guðjónsson koma við sögu. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.