Lífið

Ekki búið að ræða við Davíð Oddsson

Breki Logason skrifar
Davíð Örn Oddsson.
Davíð Örn Oddsson.
„Það hefur ekkert verið rætt við mig," segir Davíð Oddsson í samtali við fréttastofu aðspurður hvort forsvarsamenn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, hafi rætt við sig um að taka við ristjórn blaðsins. Hann segist í raun hafa lítinn áhuga á að taka við blaðinu og ætlar að einbeita sér að Partýþætti Davíðs Oddssonar sem hann heldur úti á útvarpsstöðinni Voice á Akureyri.

Hann heitir í raun Davíð Örn Oddsson og er 19 ára gamall Akureyringur og stundar nám á viðskiptabraut Verkmenntaskólans á Akureyri. Hann vinnur hjá Póstinum með skóla og rekur síðan sitt eigið fyrirtæki sem heitir Skellur.

„Við framleiðum klósettsetudempara og það gengur bara mjög vel, þetta er meðal annars komið í Húsasmiðjuna og á fleiri staði," segir Davíð.

Klósettsetudemparinn heitir Gaurinn og hefur vakið mikla athygli. Meðal annars fóru Davíð og samstarfsfólk hans til Hollands í sumar þar sem þau tóku þátt í Evrópukeppni ungra frumkvöðla.

Davíð er margt til lista lagt og heldur úti Partýþætti Davíðs Oddssonar á útvarpsstöðinni Voice á Akureyri. Hann segir þáttinn nokkuð vinsælan en hann er á dagskrá allar helgar.

Davíð segist vera sjálfstæðismaður og að honum líki ágætlega við fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra. En hvernig er að heita Davíð Oddsson?

„Það er bara gaman, þetta er allavega góð pikköplína," segir Davíð og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.