Innlent

Evrópubúar sólgnir í þorsklifur í dós

Þau voru þrjú í fyrravor í litlu fjölskyldufyrirtæki í Grindavík að sjóða niður þorsklifur í dósir. Nú eru Evrópubúar orðnir svo sólgnir í lifrina þeirra að þau eru komin með tuttugu manns í vinnu og tugþúsundir dósa rúlla nú af færibandinu á degi hverjum til ríkja um alla Evrópu.

Það fer ekki mikið fyrir þessari starfsemi í lágreistri byggingu við höfnina í Grindavík. Fyrir innan er afkastamikil verksmiðja að framleiða sælkerafæði fyrir kaupendur í Evrópu. Það er verið að sjóða íslenska þorsklifur niður í dósir, allt upp í 40 þúsund dósir á dag.

Lifrin kemur glæný frá útgerðum í Grindavík og víðar á Suðurnesjum. Mannskapurinn hefur margfaldast frá því í fyrravor þegar þau voru þrú í fjölskyldunni að sjóða niður í dósir. Nú eru starfsmennirnir tuttugu talsins og stefnt að því að fjölga, að sögn Birkis Kristjánssonar framleiðslustjóra Ice-West. Og fólkið vinnur 70 til 90 yfirvinnutíma í mánuði.

Hluta af vélbúnaði máttum við ekki mynda, nýtt tæki sem hreinsar orma úr lifrinni með ensímum, en það er hannað í samvinnu við Martak í Grindavík.

Birkir segir það hafa verið barning að byggja fyrirtækið upp. Engin lán hafi fengist úr bönkum sem á sama tíma stóðu galopnir þeim sem vildu kaupa lúxusjeppa. Þó er ekkert lát á sölunni. Stórar pantanir berast og hann hefur engar áhyggjur af markaðsmálum. Helstu áhyggjurnar eru af peningamálum. Fyrirtækið fær ekki eðlilega lánafyrirgreiðslu. Synjað er um hærri afurðalán þrátt fyrir góðar tryggingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×