Innlent

115 milljarðir af Icesave-syndum falla á skattborgara

Höskuldur Kári Schram skrifar

Um 115 milljarðar króna munu falla íslenska ríkið vegna Icesave samkomulagsins samkvæmt mati skilanefndar Landsbankans. Eignir Landsbankans hafa rýrnað um 95 milljarða frá síðasta mati sem gert var í febrúar.

Skilanefnd landbankans kynnti nýtt mat á eignum bankans á fundi efnhags- og skattanefndar Alþingis í morgun.

Samkvæmt mati skilanefndar eru eignir nú metnar á ellefu hundruð milljarða króna og hafa rýrnað um 95 milljarða frá fyrra mati sem kynnt var í febrúar síðastliðnum.

Fyrst og fremst eru það innlendar eignir bankans sem hafa rýrnað.

Um 230 milljarða vantar upp á til þess að eignir bankans dugi fyrir kröfum. Helmingur þess fellur á íslendinga vegna Icesave - eða eitt hundrað og fimmtán milljarðar.

Í febrúarmati bankans var því spáð að 72 milljarðar myndu falla á íslenska ríkið og því hefur sú tala hækkað um 43 milljarða á aðeins þremur mánuðum.

Endanlegt virði eigna bankans er ennfremur háð mikilli óvissu og þær gætu því rýrnað enn frekar.

Að sögn Lárusar Finnbogasonar, formanns skilanefndar Landsbankans þá er gríðarlega erfitt að meta skuldirnar og eiginlega ómögulegt.

„þetta er eins og kristalkúla að meta þessa framtíð. við erum bara með stöðumat núna miðað við eins og við erum að meta stöðuna í dag," segir Lárus.

Eignirnar gætu þó einnig hækkað í verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×