Innlent

Rannsaka skotvopn árásarmannsins

Útidyrahurð fórnarlambs. Árásarmaður skaut nokkrum skotum á dyr og dyraumbúnað á heimili í Breiðholti aðfaranótt sunnudags.
Útidyrahurð fórnarlambs. Árásarmaður skaut nokkrum skotum á dyr og dyraumbúnað á heimili í Breiðholti aðfaranótt sunnudags. Mynd/Anton Brink

Lagt hefur verið hald á nokkur skotvopn á heimili mannsins sem réðist á annan á heimili þess síðarnefnda í Breiðholti aðfaranótt sunnudags.

„Rannsókn er í gangi á því hvaða vopni var beitt í árásinni," segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn, sem er í gæsluvarðhaldi fram til föstudags, hefur játað árásina, en rannsóknin beinist nú meðal annars að því hversu mikið tjón hann ætlaði fórnarlambi sínu. Árásarmaðurinn er, að sögn Friðriks Smára, með leyfi fyrir fleiru en einu skotvopni.

Maðurinn sem ráðist var á kom til dyra um hálf fjögur aðfaranótt sunnudags en var þá barinn í andlitið með skeftinu á haglabyssu. Hann náði að loka á árásarmanninn sem í kjölfarið skaut um fimm skotum á hurðina og dyraumbúnað.

Árásin er talin eiga rót sína í því að maðurinn sem ráðist var á hafði sagt unnustu árásarmannsins upp störfum.

Friðrik Smári segir erfitt að segja til um hvenær rannsókn málsins kunni að ljúka. „Það er unnið að þessu af fullum krafti og reynt að komast eins langt og hægt er meðan gæsluvarðhaldið stendur. Við verðum svo bara að sjá hvar við stöndum þá," segir hann. - óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×