Innlent

Fulltrúar Framsóknarflokksins dýrastir

Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, er eini borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.
Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, er eini borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna ferða- og dagpeningagreiðslna borgarfulltrúa og annarra fulltrúa borgarstjórnarflokkanna voru að minnsta kosti 16,3 milljónir króna á árunum 2006 til 2008. Heildargreiðslur vegna fulltrúa Framsóknarflokksins voru hlutfallslega hæstar miðað við fylgi í síðustu borgarstjórnarkosningum og fjölda borgarfulltrúa.

Lokabókanir ársins 2008 liggja ekki endanlega fyrir þannig að kostnaður borgarinnar er hugsanlega meiri. Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa F-listans.

Heildarkostnaður borgarinnar vegna ferða- og dagpeningagreiðslna borgarfulltrúa og annarra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á tímabilinu var 8,4 milljónir króna. Þar á eftir kemur borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar með 2,8 milljónir. Kostnaður borgarinnar vegna Vinstri grænna var 2,2 milljónir og rétt á eftir koma borgarfulltrúi og fulltrúar Framsóknarflokksins með 2,1 milljón. Lægstur var ferðakostnaður F-listans eða rúmlega 800 þúsund.

Þrír meirihlutar hafa starfað á yfirstandi kjörtímabili og hefur Framsóknarflokkurinn átt sæti í þeim öllum. Tjarnarkvartettinn svokallaði undir forystu Dags B. Eggertssonar starfaði í rúmlega 100 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×