Lífið

Fréttakona eldar fyrir sjónvarpsáhorfendur

í eldhúsinu Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir stjórnar matreiðsluþætti í Ríkissjónvarpinu sem hefur göngu sína í október. fréttablaðið/gva
í eldhúsinu Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir stjórnar matreiðsluþætti í Ríkissjónvarpinu sem hefur göngu sína í október. fréttablaðið/gva

„Við ætlum að reyna að hafa einfaldleikann að leiðarljósi. Við ætlum vonandi að búa til góðan og girnilegan mat á einfaldan hátt og helst þannig að hann kosti ekki of mikið,“ segir fréttakonan Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir.

Í byrjun október hefur göngu sína vikulegur matreiðsluþáttur í Sjónvarpinu með Jóhönnu Vigdísi við stjórnvölinn. „Mér finnst þetta mjög spennandi. Ég hef heyrt hjá fólki að það er eftirspurn eftir matreiðsluþáttum og almennt held ég að áhugi fólks á eldamennsku hafi farið vaxandi undanfarin ár,“ segir Jóhanna Vigdís, sem mun halda áfram störfum sínum sem þingfréttamaður á RÚV meðfram þáttagerðinni.

Jóhanna Vigdís hefur gefið út tvær matreiðslubækur sem hafa báðar selst eins og heitar lummur og segist hún vera afar þakklát fyrir það. „Ég fæ mjög mikið af góðum skilaboðum frá þeim sem hafa gaman af bókunum og mér þykir óskaplega vænt um það. Það sýnir okkur líka að þessi áhugi er fyrir hendi og fer vaxandi. Ég held að matreiðslubækur hafi varla selst eins mikið og síðustu misseri.“

Þrátt fyrir að maturinn sem Jóhanna Vigdís ætlar að elda verði einfaldur og frekar ódýr segist hún ekki vera að gefa fólki ráð við kreppunni sem slíkri. „Þetta eru bara góð ráð. Það er hægt að búa til góðan og girnilegan mat án þess að það taki of langan tíma og án þess að það kosti of mikið.

Auðvitað er stundum hægt að leika sér og kaupa dýrt hráefni en við teljum að fólk sé að hugsa um það sem það eldar kannski fjórum sinnum í viku,“ segir hún. „Fólk hefur lítinn tíma, allir eru svangir og vilja eitthvað girnilegt og fljótlegt. Eins og við vitum í því samfélagi sem við lifum endar fólk oft á því að panta pitsu, sem tekur kannski lengri tíma en einmitt að elda einhvern rétt á pönnu.“

Eins og áður sagði hefur Jóhanna Vigdís gefið út tvær metsölubækur um mat. Samt sem áður vill hún ekki gefa sig út fyrir að vera sérfræðingur í matreiðslu. „Ég er bara áhugamaður og er ekki útlærður kokkur. Ég er fyrst og fremst fréttamaður sem hefur gaman af því að búa til mat.“ freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.